„Við höfum stigið farsælt skref og hlökkum til að hefjast handa við mikilvæg verkefni sem bíða þessarar nýju stofnunar,"
...sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, eftir að hafa skrifað undir samning um nýja Rannsóknastofnun lífeyrismála í fundaherbergi háskólaráðs í gær. Undir samninginn skrifuðu líka Jón Ólafur Halldórsson, stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Nýja stofnunin verður samstarfsvettvangur starfandi fræðimanna á sviði lífeyrismála við Háskóla Íslands, Seðlabanka Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytið og aðrar stofnanir eftir atvikum. Markmiðið er að efla rannsóknir og auka skilning á lífeyrismálum, efna til samstarfs við erlenda fræðimenn, afla upplýsinga og hugmynda um skipan lífeyrismála erlendis og benda á mögulegar lausnir og úrbætur til að bregðast við áskorunum sem lífeyrissjóðir á Íslandi standa frammi fyrir.
Kveðið er á um að stofnunin haldi úti upplýsingavef, skipuleggi vinnustofur fræðimanna til að bera saman bækur sínar og kynni rannsóknir sínar á sviði lífeyrismála, skipuleggi árlega ráðstefnu til að kynna rannsóknaniðurstöður og komi árlega að því að styðja við einn doktorsnema og einn starfsmann til að vinna að rannsóknum er nýst geti íslenska lífeyriskerfinu.
Rannsóknastofnun lífeyrismála verður hýst í Háskóla Íslands og HÍ ber jafnframt ábyrgð á skuldbindingum stofnunarinnar.
Stofnunin verður faglega sjálfstæð en starfar náið með PeRCent (The Pensions Research Centre) við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn.