Eignir lífeyrissjóða fóru vaxandi á fyrri helmingi ársins 2021 og voru heildareignir sjóðanna rúmlega 6.150 milljarðar króna í lok júní. Höfðu eignirnar hækkað um 7,3 % að nafnvirði frá áramótum en til samanburðar hækkuðu eignir um 6,3 % á fyrri helmingi síðasta árs en þá voru sveiflur á eignamörkuðum einnig nokkuð meiri en í ár.
Erlendar eignir eru rúmlega þriðjungur allra eigna sjóðanna og hefur það hlutfall verið nokkuð stöðugt það sem af er ári. Séreign í vörslu lífeyrissjóða er um 10% af heildareignum sjóðanna og hefur sá eignarflokkur vaxið um 8,6% það sem af er ári þrátt fyrir núverandi heimild til sérstakrar útgreiðslu séreignar vegna Covid-19.
Uppgreiðslur umfram ný útlán lífeyrissjóða fyrstu 6 mánuði ársins voru um 24 milljarðar kr. Hreinar uppgreiðslur á verðtryggðum lánum námu 32 milljörðum en ný óverðtryggð útlán umfram uppgreiðslur voru tæpir 8 milljarðar.
Undanfarið hefur hröð breyting verið á íbúðalánum heimila, frá verðtryggðum yfir í óverðtryggð lán og þegar horft er til allra lánveitenda er um helmingur íbúðalána heimilanna nú óverðtryggður. Heildarútlán lífeyrissjóða til heimila námu 486 milljörðum í lok júní sem er tæplega fjórðungur allra íbúðalána heimila.