Skipting ellilífeyrisréttinda

Hjón og fólk í sambúð velti fyrir sér að skipta lífeyrisréttindum

Í grein eftir Þóreyju S. Þórðardóttur framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða sem birtist í Morgunblaðinu í ágúst sl. vekur hún athygli á að; "Lagaákvæðið um skiptingu lífeyrisréttinda sé alls ekki hugsað sem skilnaðarúrræði heldur sem jafnréttis- og sanngirnismál,,  

Í lögum um lífeyrissjóði er ákvæði sem heimilar sjóðfélögum að semja við maka sína um gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna lífeyrisréttinda. Þessi möguleiki hefur verið fyrir hendi í lífeyrissjóðalögum á þriðja áratug og oft verið kynntur í blaðagreinum, viðtalsþáttum og samfélagsmiðlum. Margir vita samt ekki af lagaheimildinni og því nærtækt að benda annað slagið á hana en vísa jafnframt á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, lifeyrismal.is, þar sem ítarlegri upplýsingar er að finna.

Lögin kveða á um þrjá möguleika í samningum hjóna og fólks í sambúð; a) að skipta áunnum lífeyrisréttindum, b) að skipta framtíðarréttindum (iðgjaldinu) og c) að skipta greiðslum þegar taka lífeyris er hafin.

Þetta eru möguleikar sem vert er að fólk í hjúskap eða sambúð kynni sér og leiti ráða hjá starfsfólki lífeyrissjóða sinna. Sjálf starfaði ég áður að réttindamálum hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og aðstoðaði sjóðfélaga við tilheyrandi samningsgerð. Rak ég mig þá gjarnan á þann misskilning að sumir litu á skiptingu lífeyrisréttinda sem skilnaðarúrræði. Þannig er lagaákvæðið hins vegar alls ekki hugsað heldur sem jafnréttis- og sanngirnismál. Ég rak mig líka á tilvik þar sem beint lá við að ráðleggja viðkomandi að hugsa sinn gang áður en lengra væri farið því aðstæður fólks geta verið þannig að samningar um réttindaskiptingu væru beinlínis óskynsamlegir. Hér er með öðrum orðum margs að gæta.

Því hefur verið varpað fram í umræðum að fólk í hjúskap og sambúð eigi ekki að þurfa að semja sérstaklega um að jafna lífeyrisréttindi sín því jafnaðar- og sanngirnismál af þessu tagi eigi að ganga sem næst sjálfkrafa fyrir sig. Hér kunna skoðanir að vera skiptar enda lífeyrisréttindi persónubundin og nánast heilög í lagalegum skilningi. Um þau er ekki hægt að semja, nema með framangreindum hætti, og þau eru hvorki framseljanleg né aðfararhæf. Lífeyrisréttindi verða ekki veðsett og þau eru tekin út fyrir sviga við gjaldþrot.

Lífeyrissjóðalögin veita sem sagt þá einu undanþágu frá meginreglunni að hjón og sambýlisfólk geti jafnað lífeyrisréttindi sín sem falla til á meðan hjúskapur eða óvígð sambúð varir eða hefur varað. Slíkir samningar verða að vera gagnkvæmir og jafnir. Þeir geta einungis tekið til lífeyrisréttinda og eftirlauna úr lífeyrissjóðum en ekki til makalífeyris eða örorkulífeyrisréttinda. Slíka samninga þarf að gera fyrir 65 ára aldur og áður en taka ellilífeyris hefst. Þá er jafnframt lagaskilyrði að heilsufar samningsaðila dragi ekki úr lífslíkum þeirra.

Samningar um skiptingu lífeyrisréttinda eru tiltölulega fátíðir, einhverra hluta vegna. Lagaheimildin er vissulega til staðar og hefur lengi verið. Hjón og sambúðarfólk ætti að kanna málið og leita ráða hjá starfsfólki lífeyrisjóða sinna. Þá er leiðbeiningar, samningseyðublað og upplýsingar um verkferla og fleira að finna á lifeyrismal.is.

Lífeyrissjóðir veita hjónum og sambúðarfólki upplýsingar og ráðgjöf um skiptingu lífeyrisréttinda.

Einnig má finna upplýsingar á vefnum lifeyrismal.is hér 

Viltu fylgjast með
og fá fréttabréfið okkar?
Netfangið þitt