Aðilar á íbúðalánamarkaði þ.e. Landssamtök lífeyrissjóða, Íbúðalánasjóður og Samtök fjármálafyrirtækja undirrituðu s.l. þriðjudag samkomulag, þar sem lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki á íbúðalánamarkaði auk Íbúðalánasjóðs, samþykkja fyrirfram sem síðari veðhafar, skilmálabreytingar sem gerðar eru samkvæmt lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána einstaklinga, sem samþykkt voru nýlega á Alþingi.
Tilgangur samkomulagsins er að stuðla að því að breyting á skilmálum lána vegna greiðslujöfnunar geti gengið sem hraðast fyrir sig og sé sem fyrirhafnar minnst fyrir lántaka sem óskar eftir greiðslujöfnun lána.
Ljóst er að samkomulagið nær ekki til allra kröfuhafa, en hér er um að ræða verulegan hluta fasteignalánamarkaðarins. Eftir sem áður verður þörf á undirritun þeirra kröfuhafa sem ekki eru aðilar að samkomulaginu og sömuleiðis þeirra sem að samkomulaginu standa ef skilmálabreyting er víðtækari en sem nemur fyrirmælum laganna, svo sem ef lán er í vanskilum og bæta þarf vanskilum við höfuðstól.
Samkeppniseftirlitið hefur heimilað framangreindum aðilum á íbúðalánamarkaði að gera með sér umrætt samkomulag.
Þess hefur verið óskað að dómsmálaráðuneytið komi samkomulaginu ásamt viðauka á framfæri við sýslumenn.