Grein eftir Eyrúnu Einarsdóttur, áhættustjóra Birtu lífeyrissjóðs, sem birtist í Fréttablaðinu á Gamlársdag 2019.
Gjarnan er fullt út úr dyrum þegar lífeyrissjóðir boða til kynningarfunda með sjóðfélögum sem nálgast lögboðinn eftirlaunaaldur eða hyggjast hætta fyrr að vinna. Þegar þarna er komið sögu á æviskeiðinu er vissulega eðlilegt að menn hafi sérstakan áhuga á réttindum sínum í lífeyrissjóðum, á útgreiðslu séreignarsparnaðar eða öðru því sem heyrir til fjármála og afkomu á efri árum.
Jafnframt er algengt að einmitt þarna vakni menn upp við að betur hefðu þeir sýnt lífeyrismálum sínum meiri áhuga mun fyrr á ævinni og haft þá svigrúm til ráðstafana sem betur hefðu verið gerðar þá. Slíkt svigrúm er sjaldnast fyrir hendi um sextugt, hvað þá síðar.
Lífeyrisréttindi eru verðmætasta eign okkar og skipta meira máli en íbúðir, bílar eða sumarhús! Þess vegna er rík ástæða til að fólk bíði ekki með það fram undir lok starfsferils síns eða lengur að kynna sér lífeyrisréttindin sín. Góð byrjun er að fara inn á Lífeyrisgáttina, til að fá yfirlit allra réttinda sem viðkomandi hefur unnið sér inn í samtryggingarsjóðum um dagana. Viðbúið er að sami sjóðfélagi hafi greitt í fleiri en einn sjóð, jafnvel í marga sjóði frá upphafi. Nauðsynlegt er að fá aðgang að eigin sjóðfélagavef og best að leita til sjóðs sem greitt er í eða greitt var síðast í, hafi menn ekki sótt sér aðgang nú þegar.
Með þessu móti getur hver sem er fengið heildarmynd af stöðu sinni og réttindum. Hafa ber í huga að réttindaávinnsla lífeyrissjóða getur verið mismunandi. Hver þúsundkall í iðgjaldi veitir ekki endilega sama lífeyrisrétt í krónum talið hjá sjóðum sem viðkomandi greiðir í.
Að fleiru ber að gæta. Sjálf veit ég til að mynda um fólk sem ráðstafaði meirihluta skylduiðgjalds síns í lífeyrissjóð í sparnaðarleið sem það fær ekki greitt úr fyrr en um áttrætt. Missi það starfsgetu á besta aldri fær það greitt lægra hlutfall af launum úr samtryggingu áður en starfsgeta skertist og gerir sér ekki grein fyrir slíkum afleiðingum.
Fæstir gera eðlilega ráð fyrir öðru en að þeir haldi óskertri starfsgetu til loka starfsævinnar en svo bein og greið er lífsins braut bara ekki hjá öllum, því miður. Fólk ætti því að kanna fyrr en síðar á starfsævinni hve mikið það fengi úr lífeyrissjóðunum sínum ef starfsorka skertist.
Séreignarsparnaður er mikilvægur liður í undirbúningi fyrir efri árin og því fyrr sem byrjað er að leggja fyrir því betra. Þá jafngildir skattfrjáls séreignarsparnaður til húsnæðiskaupa verulegum kjarabótum yngri kynslóða á atvinnu- og fasteignamarkaði.
Tilgreindur séreignarsparnaður kom nýlega til sögunnar í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þar stendur fólk frammi fyrir vali um að nýta 3,5% af launum til að auka hlutdeild sína í samtryggingu lífeyrissjóða eða verja því frekar í séreignarsparnað.
Séreign getur skipt sköpum um afkomu fólks sem hverfur af vinnumarkaði og lifir á eftirlaunum. Um margar sparnaðarleiðir er að velja hjá lífeyrissjóðum. Greiður aðgangur er að upplýsingum um leiðirnar og samsetningu þeirra og um samanburð á ávöxtun séreignarleiða. Þetta er að finna á Lífeyrismál.is, vef Landssamtaka lífeyrissjóða.
Kjarni máls er að fólk kanni vel rétt sinn til lífeyris og taki lífeyrissjóðsmál sín alvarlega sem fyrst á starfsævinni. Góðra gjalda vert er að sinna vel viðhaldi fasteigna sinna, bíla og sumarhúsa en mikilvægara að sýna fyrirhyggju gagnvart eftirlaunum og tryggingum sem varða afkomu á efri árum, heilsu og líf.