Lög um greiðslujöfnun fasteignaveðlána samþykkt á Alþingi.

Alþingi samþykkti s.l. mánudagskvöld lög um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, en lögin ná m.a. til lífeyrissjóða. Greiðslujöfnun felur á engan hátt í sér eftirgjöf á skuldum heldur er um að ræða frestun afborgana að hluta. Til lengri tíma litið leiðir greiðslujöfnun til aukins kostnaðar í formi vaxta og verðbóta og því er ekki sjálfgefið að fólk kjósi eða hafi hag af greiðslujöfnun. Hver og einn þarf að skoða þetta í ljósi aðstæðna sinna og taka ákvörðun í samræmi við það.

Með greiðslujöfnun er greiðslubyrði verðtryggðra fasteignaveðlána lækkuð tímabundið. Lántaki greiðir gjalddaga samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu. Lánið er eftir sem áður bundið vísitölu neysluverðs og breytist höfuðstóll lánsins í samræmi við hana. Meðan greiðslujöfnunarvísitalan er lægri en vísitala neysluverðs hækkar höfuðstóll lánsins sem nemur mismuninum og mun lántakandinn greiða þann mismun síðar.
Allir sem eru með verðtryggð lán með fasteignaveði hjá opinberum lánastofnunum, lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum sem hafa starfsleyfi á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki geta óskað eftir greiðslujöfnun. Hver og einn verður að meta út frá eigin aðstæðum hvort greiðslujöfnun henti best aðstæðum hans miðað við greiðslubyrði og greiðslugetu.

Sjá einnig meðfylgjandi tengil félagsmálaráðuneytisins:

http://www.felagsmalaraduneyti.is/SOSgreidslujofnun/nr/4095

Hér er hægt að nálgast lögin: Lög um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.