Virðing hf. hefur lokið samningi um langtímafjármögnun nýbygginga Byggingafélagsins Framtaks ehf. við Skyggnisbraut 20-24 í Úlfarsárdal í Reykjavík, þar sem Framtak er að reisa þrjú fjögurra hæða fjölbýlishús með alls 51 leiguíbúð. Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stafir lífeyrissjóður munu leggja til fjármagn að framkvæmdum loknum.
Bygging fjölbýlishúsanna hófst sumarið 2010 og er verkefnið áfangaskipt. Áætlað er að fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar til leigu í apríl næstkomandi og að allar íbúðirnar verði tilbúnar í ágúst á þessu ári.
Ólafur Páll Snorrason, framkvæmdastjóri Framtaks, lýsir yfir mikill ánægju með aðkomu lífeyrissjóðanna. „Aðkoma iðnaðarmannasjóða á borð við Sameinaða lífeyrissjóðinn og Stafi að svona verkefnum er gríðarlega jákvæð. Um leið og þetta verkefni veitir fjölda iðnaðarmanna vinnu erum við einnig að svara þeirri vaxandi eftirspurn eftir leiguíbúðarhúsnæði sem nú ríkir á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega eftir íbúðum í þessum stærðarflokki,“ segir
Ólafur Páll.
Um Framtak
Byggingafélagið Framtak ehf er leigufélag sem rekur eingöngu leiguíbúðir við Skyggnisbraut 20-24 við Úlfarsfell í Reykjavík. Markmið Framtaks ehf. er að byggja upp sterkt og kraftmikið leigufélag sem sinnir leigjendum fyrst og
fremst af heiðarleika og trausti. Framtak ehf. horfir til þess að gera langtíma leigusamninga við leigjendur. Áætlað er að hefja útleigu á næstu vikum.