Hermann Oskarsson, hagstofustjóri Færeyja og Gunvör Balle, aðalræðismaður Færeyja á Íslandi, verða framsögumenn á morgunfundi sem haldinn verður í Hvammi á Grand Hótel mánudaginn 17. nóvember næstkomandi kl. 8:00 til 9:30 undir yfirskriftinni „Hvað getum við lært af Færeyingum?“
Að loknum stuttum framsöguerindum verða pallborðsumræður með þátttöku framsögumanna og Hjálmars Árnasonar, framkvæmdastjóra Samgöngu- og öryggisskóla Keilis og fyrrverandi alþingismanns, sem hefur mikla þekkingu á málefnum Færeyja. Fundarstjóri verður Bogi Ágústsson, fréttamaður. Fundurinn er haldinn á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða, Byrs sparisjóðs, Íbúðalánasjóðs, Sendistova Föroya í Reykjavík og KOM almannatengsla. Fundurinn er haldinn á ensku og er öllum opinn. Ókeypis er á fundinn. Skrá þarf þátttöku í netfang kom@kom.is eða í síma 540 8800.
Árið 1992 reið efnahagsleg holskefla yfir banka- og athafnalíf Færeyja, með slíkum afleiðingum að þjóðlífið hrundi nánast til grunna. Um fjórðungur landsmanna tapaði vinnunni, fjölskyldur misstu húsnæði sitt, fyrirtæki urðu gjaldþrota, verslanir gáfust upp og um fimm þúsund Færeyingar yfirgáfu föðurland sitt fyrir grænni grundir Danmerkur. Landsmönnum fækkaði úr 48 þúsund í um 43 þúsund. Landsframleiðslan dróst saman um þriðjung og fiskiskipaflotinn minnkaði um helming.
Mikill efnahaglegur samdráttur varð í heimsbúskapnum upp úr 1990 og lentu bankar og fjármálafyrirtæki í fjölmörgum ríkjum í miklum erfiðleikum. Á sama tíma varð aflabrestur í færeyskum sjávarútvegi. Tveir bankar í Færeyjum urðu illilega fyrir barðinu á kreppunni. Föroya banki, sem var í eigu Danske Bank og Sjóvinnubankinn horfðust í augu við gjaldþrotsdrauginn en landstjórn eyjanna hljóp undir bagga með bönkunum og bjargaði þeim af bjargbrúninni.
Með seiglu og einbeitni tókst frændum okkar Færeyingum að snúa vörn í sókn og komast upp úr öldudalnum. Þeir tóku til í sínu efnahags- og atvinnulífi. Þeir styrktu undirstöður atvinnulífsins til að hjálpa fyrirtækjum að endurvinna traust og afkomu. Einstaklingum og fjölskyldum var hjálpað við að endurbyggja líf sitt og afkomu. Færeyingjar leituðu einnig í þjóðararf sinn og færðu mikið líf í allt menningar- og tónlistarlíf eyjanna, svo eftir var tekið.
Á fundinum verður leitað svara við þeirri spurningu hvernig við Íslendingar getum lært af þessum hremmingum og gengið í smiðju frænda okkar Færeyinga.
Fundurinn verður haldinn á ensku og er öllum opinn. Ókeypis er á fundinn en skrá þarf þátttöku hjá KOM almannatengslum, í netfang kom@kom.is eða í síma 540 8800.