Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, hefur tilkynnt stjórn samtakanna að hann hyggist láta af störfum að loknum aðalfundi þeirra í maímánuði næstkomandi. Stjórnin hefur því ákveðið að auglýsa framkvæmdastjórastarfið laust til umsóknar.
Hrafn hefur verið framkvæmdastjóri samtaka lífeyrissjóða samfleytt í 36 ár, fyrst hjá Sambandi almennra lífeyrissjóða – SAL frá 1. maí 1975 til ársloka 1998 og síðan hjá Landssamtökum lífeyrissjóða frá því þau tóku til starfa í byrjun árs 1999. Hann verður 68 ára núna sumarið 2011.
Hrafn hugðist hætta heldur fyrr en varð við ósk stjórnar landssamtakanna um að fresta því vegna hruns fjármálakerfisins í október 2008. Forysta samtakanna taldi afar óráðlegt að skipta um framkvæmdastjóra í öllu því umróti sem fylgdi hruninu, enda blasti við að holskefla verkefna af öllu tagi myndi þá skella á samtökunum og framkvæmdastjóra þeirra.
Hrafn segir reynsluna staðfesta að óskynsamlegt hefði verið að „skipta um hest í miðri á“ í hruninu en nú séu aðstæður breyttar. Þjóðin sé hægt og bítandi að komast upp úr öldudal kreppunar og straumurinn sé ekki eins stríður og þungur og áður var. Þess vegna telji hann tímabært að tilkynna nú um ákvörðun sína.
Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að ákvörðun Hrafns sæti vissulega miklum tíðindum í röðum forystumanna lífeyrissjóða landsins þótt hún komi út af fyrir sig ekki alveg á óvart:
„Hrafn Magnússon hefur staðið sig frábærlega á löngum ferli í störfum sínum fyrir lífeyrissjóðina og hagsmunasamtök þeirra. Það hefur oft á tíðum verið með ólíkindum hvað hann hefur komið miklu í verk í stórauknum og krefjandi verkefnum Landssamtaka lífeyrissjóða í kjölfar banka- og efnahagshrunsins.
Hann gefur landssamtökunum gott svigrúm til að bregðast við ákvörðun sinni og hefur jafnframt lýst sig reiðubúinn til að aðstoða eftirmann sinn við að komast inn í störf sín og sinna áfram einstökum verkefnum fyrir landssamtökin og lífeyrissjóðina, ef svo ber undir. Fyrir það er ég afar þakklátur.“