Undanfarnar vikur hafa farið fram viðræður milli fulltrúa Landssamtaka lífeyrissjóða og stjórnvalda um hlutdeild lífeyrissjóða í fjármögnun á sérstökum vaxtabótum, sem komu fram í viljayfirlýsingu stjórnvalda, fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða frá 3. desember 2010.
Viðræður fóru fram á sl. ári milli fjármálaráðuneytisins og lífeyrissjóðanna um framlag hlutdeildar lífeyrissjóðanna til sérstakra vaxtabóta en þær skiluðu ekki tilætluðum árangri. Stjórnvöld lögðu því fram frumvarp á Alþingi um framlag lífeyrissjóðanna til fjármögnunar tímabundinna vaxtabóta til tveggja ára, þ.e. 2011 og 2012, og var það að lögum í desember sl.. Með lögunum er lífeyrissjóðum ætlað að greiða sérstakt tímabundið gjald í ríkissjóð sem svarar til ákveðins hlutfalls af hreinni eign þeirra til greiðslu lífeyris. Í fjárhæðum svarar gjaldtaka samkvæmt lögunum til um 1.400 m.kr. á ári miðað við álagningu fyrir árið 2011.
Í kjölfar viðræðna frá því í desember 2010 hafa aðilar nú náð sameiginlegum skilningi um þátttöku lífeyrissjóða í fjármögnun sérstakra vaxtabóta.Liggur nú fyrir samkomulag sem fjármálaráðherra, Oddný Harðardóttir, hefur staðfest f.h. stjórnvalda. Það felur í sér að til að skila hlut lífeyrissjóðanna í fjármögnun sérstakra tímabundinna vaxtabóta á árunum 2011 og 2012 munu lífeyrissjóðirnir styðja við framkvæmd áætlunar sem miðar að því að aflétta gjaldeyrishöftum. Í því sambandi munu lífeyrissjóðirnir m.a. taka þátt í gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands á komandi mánuðum, en fyrsta gjaldeyrisútboð Seðlabankans á þessu ári lýkur þann 15. febrúar nk.
Gangi sameiginleg markmið aðila um þátttöku lífeyrissjóðanna í útboðunum eftir mun ríkisstjórnin leggja fyrir Alþingi frumvarp, eigi síðar en á haustþingi 2012, um að fella brott ákvæði laga sem fela í sér skattlagningu á hreina eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris vegna áranna 2011 og 2012. Afar mikilvægt er að ekki þurfi að skerða sérstakar vaxtabætur, enda eru þær hluti af almennum aðgerðum stjórnvalda sem ætlað er að mæta brýnum vanda þeirra sem skulda húsnæðislán.