Finnst skemmtilegt að læra eitthvað nýtt

Viðtal við Hörpu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra LSR í Fréttablaðinu 23. janúar 2020. 

Finnst skemmtilegt að læra eitthvað nýtt

Harpa Jónsdóttir er fyrsta konan til að gegna stöðu framkvæmdastjóra í 100 ára sögu LSR, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hún segir lífeyrissjóði geta haft jákvæð áhrif á samfélagið með fjárfestingarstefnu sinni.

Harpa hefur starfað á fjármálamarkaði í ellefu ár; í viðskiptabönkum, Seðlabankanum og nú sem framkvæmdastjóri LSR.

„Ég hef verið á einhvers konar ferðalagi, úr viðskiptabanka á fallandi fæti fór ég í Seðlabankann, hringamiðju fjármálamarkaðsins, og starfaði við áhugaverð viðfangsefni eins og uppbyggingu fjármálakerfisins eftir hrun og ýmsar greiningar í tengslum við afnám fjármagnshafta, en þegar starf framkvæmdastjóra LSR var auglýst síðastliðið vor fannst mér kjörið að bjóða fram þekkingu mína og reynslu á öðrum vettvangi og læra eitthvað nýtt því samhliða,“ segir Harpa.

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR.Konur í forystu hjá mörgum íslenskum lífeyrissjóðum

Mikil breyting hefur orðið á kynjahlutfalli stjórnenda lífeyrissjóða á Íslandi á stuttum tíma en síðustu áratugi hefur lífeyrissjóðunum að mestu verið stýrt af karlmönnum. Harpa tók fyrst kvenna við stöðu framkvæmdastjóra LSR í lok síðasta sumars og á þeim tíma var Unnur Pétursdóttir formaður stjórnar.

„Það er auðvitað skrýtið að hugsa til þess að það skuli ekki vera fyrr en á hundraðasta starfsári LSR sem kona verður framkvæmdastjóri sjóðsins í fyrsta sinn. Þetta er jákvætt og það hefur verið mjög ánægjulegt að sjá þróun síðustu ára þar sem konum í æðstu stöðum hjá lífeyrissjóðum hefur fjölgað hratt. Íslenskir lífeyrissjóðir eru umfangsmiklir fjárfestar og því mikið hreyfiafl í samfélaginu og mér finnst skipta miklu máli að stefnt sé að því að jafna kynjahlutföll í æðstu stöðum þeirra,“ segir Harpa.

Ábyrgar fjárfestingar

LSR hefur sett sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar.

„Með ábyrgum fjárfestingum er átt við að litið sé til umhverfismála, samfélagslegra þátta og stjórnarhátta við mat, ákvörðun og eftirfylgni fjárfestinga LSR. Umhverfismál lúta meðal annars að loftslagsbreytingum og mengun. Samfélagslegir þættir, eins og vinnuaðstæður, mannréttindi og jafnrétti skipta máli og að lokum er litið til stjórnarhátta en þar undir falla þættir eins og hagsmunaárekstrar, samsetning stjórna og annað. Með ábyrgri fjárfestingastefnu getur sjóðurinn haft jákvæð áhrif á samfélagið í heild sinni,“ upplýsir Harpa.

Hún segir eðli starfsemi lífeyrissjóða að hugsa til framtíðar.

„Lífeyrissjóðir taka við fé sjóðfélaga í dag og greiða út áratugum síðar. Það er því rökrétt að huga að öllum þáttum í því samhengi, og líta til þess hvernig umhverfið og samfélagið verður á þeim tíma þegar lífeyrir er greiddur út, því þessir þættir geta haft veruleg áhrif á lífsgæði. Þetta hangir því allt saman,“ segir Harpa.

„Við sjáum samhljóm í framangreindu hjá þeirri kynslóð sem er að koma á vinnumarkaðinn á næstu árum. Sú kynslóð leggur mikla áherslu á að vinnustaðurinn sé samfélagslega ábyrgur.“

Margar áskoranir í fjárfestingarumhverfinu

Starfsemi lífeyrissjóða felst einkum í þremur þáttum: Að taka á móti iðgjöldum, ávaxta fé sjóðfélaga og greiða lífeyri.

„Með lækkandi vöxtum og hækkandi lífaldri standa lífeyrissjóðir frammi fyrir áskorunum sem gæti þurft að bregðast við. Flestir lífeyrissjóðir hafa náð góðri ávöxtun undanfarið en með viðvarandi lágum vöxtum er hætt við að ávöxtun lækki sem kann að leiða til þess að endurskoða þurfi lífeyrissjóðakerfið að einhverju leyti. Þetta gæti falist í því að skoða hvort hækka þurfi inngreiðslur, lækka útgreiðslur, hækka lífeyrisaldur eða fara blandaða leið,“ útskýrir Harpa.

„Við þess konar stefnumótun er mikilvægt að vanda til verka og stilla upp mismunandi sviðsmyndum með það að markmiði að taka vandaða og vel ígrundaða ákvörðun. LSR vill gjarnan leggja sitt af mörkum í slíkri vinnu.“

Harpa segir að vinna ætti markvisst að því að auðvelda fólki heildaryfirsýn til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um hvernig það vill haga sínum starfslokum. 
 

Margir kostir við fullfjármagnað lífeyriskerfi

Ísland er eitt örfárra ríkja í heiminum með fullfjármagnað lífeyriskerfi og að mestu leyti samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn.

„Í því felst að hver kynslóð safnar í sjóð fyrir sig í stað þess að velta kostnaði við lífeyrisgreiðslur yfir á komandi kynslóðir. Margar þjóðir með gegnumstreymiskerfi glíma við vanda vegna fólksfækkunar. Gegnumstreymiskerfi virkar þannig að engin sjóðsöfnun á sér stað heldur er lífeyrir fjármagnaður með skatttekjum. Það er því fólk á vinnumarkaði sem fjármagnar lífeyri þeirra sem eru á eftirlaunum,“ útskýrir Harpa.

Þetta gangi ágætlega ef fólksfjöldi sé nokkuð stöðugur eða fari vaxandi.

„Við aðstæður fólksfækkunar, eins og við erum að horfa upp á núna, er erfitt að halda slíku kerfi gangandi þar sem lífeyrisþegum fjölgar og fólki á vinnumarkaði fækkar. Fullfjármagnað kerfi er laust við þessa áhættu og að auki óháð þeim pólitísku ákvörðunum sem óhjákvæmilegar eru þegar lífeyrir er fjármagnaður með skatttekjum,“ segir Harpa.

Einföldun lífeyriskerfisins

Að sögn Hörpu er lífeyriskerfið orðið óþarflega flókið.

„Sameign, séreign, tilgreind séreign og samspil þessara réttinda við almannatryggingar gera almenningi erfitt að átta sig á réttindum sínum. Vinna ætti markvisst að því að einfalda kerfið með það að markmiði að auðvelda fólki heildaryfirsýn til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir um hvernig það vill haga sínum starfslokum. Við slíka stefnumótandi vinnu þurfa lífeyrissjóðirnir að koma að borðinu því þeir þekkja kerfið og sjóðfélaga sína,“ segir Harpa.

Spennandi tímar fram undan

Harpa er í eðli sínu fróðleiksfús. Hún á að baki langt nám með doktorspróf í verkfræði sem krefst mikils aga og vilja til að leita nýrra lausna.

„Á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar, með tæknina í fyrirrúmi, er slíkt gott veganesti. Fram undan eru mörg spennandi tækifæri til að nýta stafrænar lausnir í starfsemi sjóðsins, sjóðfélögum til hagsbóta með aukinni sjálfvirkni og einnig til góðs fyrir umhverfið með minni pappírsnotkun. Hið sama má segja varðandi nýja hugsun í fjárfestingum með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi en LSR er stærsti lífeyrissjóður landsins og sem slíkur getur sjóðurinn haft áhrif,“ segir Harpa.