„Lífeyrissjóðir landsins urðu vissulega fyrir áfalli þegar bankarnir þrír hrundu með tilheyrandi afleiðingum fyrir efnahags- og atvinnulíf landsmanna en af þeirri atburðarás á launafólk alls ekki að draga þann lærdóm að hætta beri sparnaði. Þvert á móti tel ég jafnvel mikilvægra en nokkru sinni fyrr að leggja fyrir, til dæmis í séreignarsjóð,“ segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs, í tilefni umræðu sem vart verður á opinberum vettvangi og í fyrirtækjum um að nærtækt sé að bæta sér upp kjaraskerðingu vegna efnahagsástandsins í atvinnulífinu með því að hætta séreignarsparnaði.
Viðtalið var tekið við Ólaf fyrir nýútkomið blað á vegum Rafiðnaðarsambands Íslands og hefur nú einnig verið birt á heimasíðu Stafa. Þarna er fjallað um eitt af þeim málum sem ofarlega eru á baugi í þjóðmálaumræðunni núna varðandi lífeyrissjóðakerfið og umræðuefnið á því erindi á þennan vettvang líka.
Viðmælandi í sjónvarpsfréttum á dögunum hvatti nánast fólk til að fara að dæmi sínu og leggja af séreignarsparnað en verja peningunum til að „greiða niður höfuðstól húsnæðisláns“. Vitað er um atvinnurekendur sem vilja semja við starfsfólkið sitt um kauplækkun og benda því jafnframt á að draga úr áhrifum kjaraskerðingarinnar með því að hætta séreignarsparnaði á meðan samdráttarskeiðið varir. Myndir þú sjálfur þiggja ráð af þessu tagi?
Við sögðum því áður og segjum enn: Séreignarlífeyrir er tvímælalaust hagkvæmasta leiðin til að hafa fjármuni til ráðstöfunar á efri árum til viðbótar því sem fólk safnar alla starfsævina með lögbundnum greiðslum í lífeyrissjóði. Varðandi þetta með að nota séreignarsjóð, til að borga niður höfuðstól húsnæðisláns, þá birtist þar lífseigur misskilningur um að skuldari geti aðskilið höfuðstól láns frá verðbótum og vöxtum og valið jafnvel að borga upp höfuðstólinn en skilja hitt eftir! Auðvitað er unnt að greiða lán hraðar niður en upphaflegir samningar mæla fyrir um en þá gengur greiðslan hlutfallslega upp í bæði höfuðstól og verðbætur.“
„Nei, það myndi ég ekki gera og hvet launafólk reyndar til að velta vel fyrir sér afleiðingum slíkrar ákvörðunar til langs tíma litið, enda er farsælast að sem flestir séu ábyrgir fyrir eigin lífeyri þegar þar að kemur. Ég skil út af fyrir sig hugmyndafræðina sem liggur að baki svona ábendingum atvinnurekenda en segi hiklaust við hvern sem er, launamenn sem aðra, að það væri afar misráðið hætta að leggja fyrir í séreignarsjóð þrátt fyrir samdrátt og erfiðleika í þjóðfélaginu. Stjórnvöld senda að vísu út misvísandi skilaboð. Þau styrktu séreignarsparnað í sessi með því að ákveða að afnema skerðingu lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar um næstu áramót, 2008-2009, en virðast svo ræða það í alvöru nú að opna dyr séreignarsjóðanna í nafni aðgerða gegn efnahagsþrengingum. Ríkissjóður hefur að vísu hagsmuna að gæta þegar horft er til þess að ríkið tekur tæplega 36% skatt af séreign sem greidd yrði út strax í einu lagi. Eigendur þessara fjármuna ættu hins vegar að hafa í huga að séreignarsjóður er ekki aðfararhæfur þó svo illa fari að þeir tapi öllu öðru. Þessu ber að halda vel til haga í umræðunni. Síðast en ekki síst stendur áfram óhaggað að launamaður, sem kýs að leggja ekki fjármuni í séreignarsjóð, neitar sér jafnframt um kaupauka sem felst í samningsbundnu 2% mótframlagi atvinnurekandans.
Sumir hafa á tilfinningunni að séreignarsparnaður hafi rýrnað meira í bankahruninu og í kjölfar þess en „skyldusjóðirnir“ í lífeyriskerfinu. Það sé með öðrum orðum áhættusamara að eiga fjármuni í séreignarsjóði en „venjulegum lífeyrissjóði“. Er það rétt?
„Ég kannast við þetta viðhorf en svara því til að þar er alhæft umfram efni. Þegar á heildina er litið eru svipaðar eignir að baki sjóðum í hinni lögbundnu samtryggingu og frjálsu séreigninni. Hins vegar er þeim sem eru í séreign boðið upp á að velja um mismunandi sparnaðarleiðir, eina eða fleiri samtímis. Þeir hafa getað tekið nokkra áhættu í von um meiri ávöxtun eða valið litla áhættu en öruggari ávöxtun sparifjárins. Þegar á heildina er litið rýrnaði séreignarsparnaðurinn ekki meira vegna bankahrunsins en eignir lífeyrissjóða yfirleitt. Tilteknar sparnaðarleiðir voru hins vegar áhættusamari og skiluðu sumar hverjar góðri ávöxtun áður en koma kannski verr út nú en aðrar og „öruggari“ leiðir.“
Hafið þið hjá Stöfum breytt um fjárfestingastefnu lífeyrissjóðsins eða dregið einhverja aðra lærdóma af því sem gerðist í fjármálakerfinu í haust?
„Lærdómurinn var dýru verði keyptur og hann er fyrst og fremst sá að við verðum að greina betur áhættuþætti fjárfestinga og dreifa áhættu enn meira en áður. Lífeyrissjóðir munu líka gera meiri kröfur til skilmála í samningum við skuldara og vakta betur en áður það sem gerist til dæmis hjá fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í. Vafalaust munu einhverjir lífeyrissjóðir sameinast og stækka þar með. Þannig verða sjóðirnir burðugri og geta meðal annars komið sér upp nauðsynlegri sérhæfingu og þekkingu til fylgjast með og rannsaka fjármálamarkaði og fjárfestingarkosti. Það er úrslitaatriði að styrkja innviði lífeyrissjóðanna enn frekar.“
Fulltrúar erlendra félaga á líftryggingamarkaði láta til sín taka og hvetja fólk til að flytja séreignarsparnaðinn sinn í „öruggara skjól“ í til dæmis í Englandi og Þýskalandi. Er ekki auðskilið að slík tilboð vekji áhuga í ljósi eignaskerðingar íslensku lífeyrissjóðanna undanfarnar vikur?
Við hjá Stöfum högnumst ekki á því að fólk feli okkar að sjá um séreignarsparnaðinn sinn, enda er lífeyrissjóðurinn ekki rekinn í ágóðaskyni. Þetta snýst því ekki um að Stafir missi spón úr aski sínum ef fólk flytur séreignarsparnað sinn úr landi eða fær heimild til að nýta hann til að greiða til dæmis niður húsnæðislán. Ég segi hins vegar skýrt að það sé rangt og grundvallarmisskilningur að líta á séreignarsjóð sem eign til að nota núna. Með séreignarsparnaði leggja menn drög að því að vera á eigin framfæri á efri árum og lifa sómasamlegu lífi fremur en eiga afkomu sína undir ríkinu, börnunum sínum eða öðrum. Það þarf að ganga mikið á svo ég telji réttlætanlegt að opna lífeyrissjóði upp á gátt til að draga úr sviðanum eftir bankahöggið.“
„Fyrst vil ég segja að lífeyrissjóðir í grannríkjunum okkar hafa líka orðið fyrir búsifjum undanfarnar vikur og mánuði vegna gjaldþrota banka og fyrirtækja, enda er við alþjóðlega kreppu að eiga. Rétt er að hafa þá staðreynd í huga einmitt nú þegar margra er freistað með gylliboðum á tryggingamarkaði. Enginn ætti samt að þiggja slík boð nema gaumgæfa bæði kosti og galla og leitað ráða hjá þeim sem hafa þekkingu þar að lútandi. Smáaletið í samningum getur verið dýrkeypt. Til dæmis sá ég í gögnum frá erlendu félagi, sem starfar á íslenskum markaði, að það tekur 4% þóknun af fjármunum sem það flytur úr landi fyrir viðskiptavin sinn og síðan 4% af mánaðarlegum iðgjöldum viðkomandi. Þetta eru drjúgar summur. Menn geta verið heilu misserin að borga kostnaðinn og spara þá auðvitað ekkert á meðan!