Dyrum Olíusjóðsins lokað á kínverskan tóbaksframleiðanda

Norska fjármálaráðuneytið hefur gefið Olíusjóði Noregs, eftirlaunasjóðnum volduga, fyrirmæli um að fjárfesta ekki í verðbréfum sem tengjast kínverska fyrirtækinu Shanghai Industrial Holdings Ltd. Ástæðan er sú að fyrirtækið er tóbaksframleiðandi. Norsk stjórnvöld hafa fyrir löngu sett Olíusjóðnum siðareglur vegna fjárfestinga og sérstakt siðaráð fjallar um hvort tilteknir fjárfestingarsjóðir eða fyrirtæki um víða veröld standist þá siðamælikvarða eða ekki. Þannig lagði siðaráðið lista yfir 17 tóbaksframleiðendur fyrir fjármálaráðuneytismenn í Osló í október 2009 og mælti með því að Olíusjóðurinn sniðgengi þessi fyrirtæki. Siðaráðinu nægir að tóbaksframleiðsla sé aðeins lítill hluti starfsemi viðkomandi fyrirtækis til að setja það á svartan lista.

Norska fjármálaráðuneytið hefur gefið Olíusjóði Noregs, eftirlaunasjóðnum volduga, fyrirmæli um að fjárfesta ekki í verðbréfum sem tengjast kínverska fyrirtækinu Shanghai Industrial Holdings Ltd. Ástæðan er sú að fyrirtækið er tóbaksframleiðandi. Norsk stjórnvöld hafa fyrir löngu sett Olíusjóðnum siðareglur vegna fjárfestinga og sérstakt siðaráð fjallar um hvort tilteknir fjárfestingarsjóðir eða fyrirtæki um víða veröld standist þá siðamælikvarða eða ekki. Þannig lagði siðaráðið lista yfir 17 tóbaksframleiðendur fyrir fjármálaráðuneytismenn í Osló í október 2009 og mælti með því að Olíusjóðurinn sniðgengi þessi fyrirtæki. Siðaráðinu nægir að tóbaksframleiðsla sé aðeins lítill hluti starfsemi viðkomandi fyrirtækis til að setja það á svartan lista.Siðaráðið kannaði starfsemi Shanghai Industrial Holdings Ltd. og komst að því að félagið ætti dótturfélag í tóbaksframleiðslu í Kína, Nanyang Brothers Tobacco Company. Þar með voru örlög Shanghai Industrial Holdings Ltd. ráðin hvað varðar fjárfestingarkosti Olíusjóðsins.Fjallað var um það í heimsfréttunum í júní 2005 þegar Olíusjóður Norðmanna varpaði L-3 Communications Holding á dyr þegar kom á daginn að fyrirtækið framleiddi klasavopn. Nú hefur siðanefnd Olíusjóðsins hins vegar staðreynt þær upplýsingar L-3 Communications Holding að klasavopnaframleiðslan heyri sögunni til þar á bæ. Fyrirtækið er þar með komið á ný inn í hlýjuna og siðanefndin mælir ekki lengur gegn því að Olíusjóðurinn horfi til L-3 Communications Holding sem fjárfestingarkosts. 
Olíusjóður Noregs er einn umsvifamesti fjárfestir veraldar og trúlega sá áhrifamesti. Siðareglur hans og ákvarðanir siðanefndarinnar hafa víðtæk áhrif á viðhorf og athafnir fjölda annarra öflugra fjárfesta, enda er yfirleitt rækilega fjallað um siðaboðskap Olíusjóðsins í fjölmiðlum í öllum heimshornum. Það skaðar ímynd fyrirtækis eða fjárfestingarsjóðs að lenda á svörtum lista Olíusjóðsins en að sama skapi telja þeir sér það til tekna, hvað orðspor varðar, sem eru í fjárfestingarnáðinni hjá siðanefnd sjóðsins og fjármálaráðuneytinu í Osló.