Áætlun bendir til óbreyttra lífeyrisréttinda hjá Lífeyrisjóði verzlunarmanna.

Gerð hefur verið tryggingafræðileg úttekt á stöðu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna miðað við næstu áramót á grundvelli áætlaðra stærða. Niðurstöðurnar sýna áætlaða neikvæða stöðu sjóðsins um 9,6% um næstu áramót. Þessar upplýsingar koma fram á heimasíðu sjóðsins www.live.is

Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kveða á um að ef munur eignarliða og skuldbindinga fer umfram 10% verði að grípa til ráðstafana. Reynist niðurstaða ársins í samræmi við áætlun tryggingafræðingsins þarf ekki að koma til lækkunar lífeyris og réttinda um næstu áramót hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Frá 1997 hafa lífeyrisréttindi verið hækkuð um 21,1% umfram verðlagsbreytingar.