Viðbótarlífeyrissparnaður er mikilvæg viðbót við lífeyrissparnað landsmanna. Með honum má skapa meiri sveigjanleika þegar kemur að starfslokum og brúa að einhverju leyti bilið milli tekna fyrir og eftir starfslok. Sparnaðurinn samanstendur af framlagi launþega sem getur að hámarki numið 4% af launum og framlagi atvinnurekanda sem samkvæmt flestum kjarasamningum er 2%. Iðgjöld eru ekki skattlögð við innborgun en greiddur er tekjuskattur af sparnaðinum við útborgun.
Árið 2014 voru samþykkt á Alþingi lög sem heimila öllum einstaklingum að nýta viðbótarlífeyrissparnað sinn skattfrjálst til að kaupa fasteign eða greiða niður fasteignalán. Lögin áttu upphaflega að gilda í 3 ár en hafa nokkrum sinnum verið framlengd og gilda nú til 30. júní 2023. Árið 2016 voru svo samþykkt lög sem heimila fyrstu kaupendum að nýta sparnaðinn með þessum hætti í allt að 10 ár. Þau lög voru ekki sett tímabundið og ættu því að nýtast núverandi fasteignakaupendum sem og komandi kynslóðum sem stíga sín fyrstu skref inn á fasteignamarkaðinn.
Viðbótarlífeyrissparnað má nýta með tvennum hætti til fasteignakaupa. Annars vegar má nýta uppsöfnuð iðgjöld, frá 1. júlí 2014, til útborgunar þegar kemur að fasteignakaupum, hins vegar má nýta iðgjöld jafnt og þétt til að greiða niður lán sem tekið var til fasteignakaupa. Þessar tvær leiðir fara að sjálfsögðu saman og einstaklingur sem festir kaup á fasteign getur nýtt uppsöfnuð iðgjöld til útborgunar við kaupin og iðgjöld sem greidd eru eftir það til að greiða niður lán, innan þess tímaramma sem lögin heimila.
Fyrstu íbúðarkaupendur
Þeir einstaklingar sem stíga sín fyrstu skref inn á fasteignamarkað, þ.e hafa aldrei átt fasteign áður, geta nýtt sparnað sinn yfir 10 ára samfellt tímabil til að kaupa fasteign. Hámarksfjárhæð á ári sem nýta má með þessum hætti nemur 500 þúsund krónum og getur því heildarnýting numið 5 milljónum króna. Tveir einstaklingar sem kaupa saman geta þannig nýtt allt að 10 milljónir af iðgjöldum sínum og launagreiðanda, skattfrjálst, til fasteignakaupa. Þessi möguleiki stendur, öllum fyrstu kaupendum til boða um ókomna framtíð. Þegar kemur að kaupum hefur einstaklingurinn val um það með hvaða hætti hann vill haga þessu tíu ára samfellda tímabili, þ.e hversu mörg ár af uppsöfnuðum iðgjöldum hann hyggst nýta til útborgunar og þá hversu mörg ár af framtíðariðgjöldum hann hyggst nýta til niðurgreiðslu lána.
Þeir sem áttu fasteign fyrir 1. júlí 2014
Þeir einstaklingar sem keyptu sína fyrstu fasteign fyrir 1. júlí 2014 og eru því ekki fyrstu kaupendur samkvæmt skilgreiningu laganna hafa einnig möguleika á því að nýta viðbótarlífeyrissparnaðinn skattfrjálst með sama hætti. Það er þó ákveðin takmörkun á því hversu lengi það úrræði verður í boði en með nýlegri lagabreytingu hefur sá tími verið framlengdur til 30. júní 2023. Umsókn um greiðslu inn á lán gildir einungis um þau iðgjöld sem berast frá og með umsóknarmánuði, það er því mikilvægt að þeir sem hafa hug á að nýta sér úrræðið kynni sér málið hið snarasta. Einstaklingur getur nýtt allt að 500 þúsund krónur á ári til að greiða inn á höfuðstól láns en tveir einstaklingar sem uppfylla skilyrði til samsköttunar geta í sameiningu nýtt allt að 750 þúsund krónur á ári. Hafi einstaklingur selt fasteignina sína má nýta þau iðgjöld sem safnast hafa frá og með júlí 2014 þar til fasteign er keypt að nýju til kaupanna en þó einungis þau iðgjöld sem söfnuðust á meðan viðkomandi var ekki fasteignaeigandi.
Mikilvægi þess að huga snemma að sparnaði
Að nýta sparnað sem ætlaður er til efri áranna til að kaupa fasteign er eitthvað sem má færa rök fyrir bæði með og á móti og hver og einn þarf að skoða sína stöðu og taka ákvörðun út frá því. Skattaafslátturinn sem veittur er í þessu úrræði er hins vegar það atriði sem skiptir höfuðmáli þegar horft er til þess hvort það borgi sig að nýta þennan möguleika og vonandi nýtist hann sem flestum.
Grein eftir Snædísi Ögn Flosadóttur, framkvæmdastjóra EFÍA og LSBÍ.