Fjármálaeftirlitið hefur birt samantekt úr ársreikningum lífeyrissjóða fyrir árið 2017. Heildareignir lífeyrissjóða og vörsluaðila lífeyrissparnaðar námu samtals jafnvirði 4.115 milljarða króna í lok síðasta árs en það jafngildir 161% af vergri landsframleiðslu. 3.550 ma.kr. tilheyra samtryggingardeildum sjóðanna, 383 ma.kr. séreignardeildum og 182 ma.kr. eru hjá séreignadeildum annarra vörsluaðila lífeyrissparnaðar.
Í greininni kemur fram að iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda til samtryggingadeilda lífeyrissjóða hafi numið tæplega 153 mö.kr. á árinu 2017 en heildarfjárhæð lífeyris 125 mö.kr. á sama tíma. Undanfarin ár hefur bilið milli iðgjalda og útgreidds lífeyris minnkað hratt og nema lífeyrisgreiðslur nú 82% af iðgjöldum til alls kerfisins en hlutfallið var 55% fyrir tíu árum síðan. Iðgjöld til séreignadeilda lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila numu rúmlega 50 mö.kr. á síðasta ári en deildirnar greiddu 10 ma.kr. í lífeyri.
Eignir samtryggingadeilda tengdar erlendum gjaldmiðlum námu 26,2% við síðustu áramót en lífeyrissjóðir hafa aukið hlutdeild erlendra eigna í safni sínu eftir að fjármagnshöftum var aflétt. Hrein raunávöxtun sjóðanna nam 5,5% að jafnaði á síðasta ári og má rekja þessa ávöxtun að hluta til góðrar afkomu erlendra fjárfestingaeigna.
Í vefritinu er bent á að samkvæmt reglum um ársreikninga lífeyrissjóða er meginreglan að færa eignir á gangvirði ef frá eru talin útlán til sjóðafélaga, sem færa skal á afskrifuðu kostnaðarverði. Hins vegar er heimilt að færa önnur skuldabréf á afskrifuðu kostnaðarverði ef það er ásetningur að halda bréfunum til gjalddaga. Það að lífeyrissjóðir eru að bókfæra á annaðhvort afskrifuðu kostnaðarverði eða gangvirði getur skekkt samanburð á ávöxtunartölum milli lífeyrissjóða.
Linkur á vefritið Fjármál 2018