Þorbjörn Guðmundsson, formaður stjórnar, og Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri þökkuðu Arnari samstarfið fyrir sína hönd og lífeyrissjóða landsins. Sama gerði Hrafn Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, sem kvaddi sér hljóðs af sama tilefni. Þeir Arnar voru nánir samverkamenn og helstu talsmenn lífeyrissjóðanna í bankahruninu og í framhaldi af því og á þeim mæddi meira en margan grunar. Vinnudagar urðu að heilum vinnusólarhringum þegar mest gekk á en þeir félagar stóðust mikið og langvarandi álag svo undrun sætti.
Það var við hæfi og til heiðurs Arnari að hann var valinn til að gegna embætti fundarstjóra á þessum síðasta ársfundi sínum.
Tveir aðalmenn voru kjörnir í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða, fyrir Arnar og Úlfar Steindórsson, sem kjörinn var til þriggja ára í fyrra en sagði sig úr stjórninni nú. Nýir stjórnarmenn eru Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og Erla Jónsdóttir, varaformaður stjórnar Stapa lífeyrissjóðs.
Ársfundurinn í dag var áberandi fjölmennur og reynsluríkir fulltrúar þar töldu jafnvel ekki dæmi um jafn fjölsóttan ársfund fyrr hjá Landssamtökum lífeyrissjóða. Sjálf ársfundarstörfin voru annars hefðbundin; Þorbjörn Guðmundsson flutti skýrslu stjórnar og Þórey S. Þórðardóttir kynnti reikninga ársins 2017 og fjárhagsáætlun yfirstandandi árs.
Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og fyrsta konan í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða, kvaddi sér hljóðs undir dagskrárliðnum önnur mál og fagnaði því hvað margar konur væru komnar í forystusveitir lífeyrissjóða og landssamtaka þeirra. Hún var um árabil í forystu verkalýðshreyfingarinnar sem formaður Starfsmannafélagsins Sóknar frá 1987 og síðar varaformaður Eflingar stéttarfélags eftir að Sókn og fleiri félög sameinuðust.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur kvaddi sér líka hljóðs undir sama dagskrárlið, önnur mál, og hvatti nýkjörna stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða til að taka alvarlega og fjalla um kröfur í samfélaginu um aukið lýðræði með beinum kosningum til stjórna lífeyrissjóða.
Þorbjörn Guðmundsson vék reyndar einmitt að því í skýrslu stjórnar sem Einar gerði þarna að umtalsefni og sagði meðal annars:
„Reglulega kemur upp umræða um að tryggja þurfi beinar kosningar til stjórna lífeyrissjóða án þess að útfært hafi verið hvernig eigi að standa að slíkum kosningum. Eiga til dæmis allir að hafa sama atkvæðavægi án tillits til þess hvað þeir hafa greitt inn í sjóðina? Eiga sjóðfélagar að geta kosið í öllum sjóðum sem þeir eiga réttindi í? Hver verður bakhjarl kerfisins ef tengslin við vinnumarkaðinn yrðu rofin? Mikilvægt er að taka þessa umræðu og loka ekki á hana fyrir fram.“
Ársfundi Landssamtaka lífeyrissjóða lauk með því að Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, flutti erindi sem hann kallaði „Rýnt í þróun íslenska lífeyriskerfisins“. Hann velti þar upp ýmsum áleitnum spurningum um sjóðsöfnun íslenska kerfisins annars vegar og um gegnumstreymiskerfi hins vegar, stærð og umfang lífeyriskerfisins og framtíðarsýn.
Óhætt er að segja að Gylfi hafi vakið áhuga og haldið athygli fundarmanna því margir í salnum sáu ástæðu til að spyrja frekar og gera athugasemdir. Ræða gestsins og umræður í kjölfarið stóðu yfir í nær hálfa aðra klukkustund!