„Lög leyfa að hjón eða sambýlisfólk skipti á milli sín lífeyrisréttindum eða eftirlaunum úr lífeyrissjóðum. Fæstir huga að slíku fyrr en við skilnað en ég ráðlegg fólki í sambúð eða hjúskap að kanna málið. Slíkir samningar geta verið sjálfsagðir í sumum tilvikum en skapað mismunun og því verið varasamir í öðrum tilvikum.“
Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, fjallaði um málið í málstofu á Lagadeginum í Hörpu núna í maímánuði og hefur gert það víðar. Hún nýtti tækifærið í málstofunni til að vekja athygli á ákvæði í 14. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 sem veitir sjóðfélögum möguleika á að semja við maka sína um gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna lífeyrisréttinda.
Þórey var áður forstöðumaður réttindamála hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, LSR og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga og aðstoðaði sjóðfélaga við samningsgerðina ef svo bar undir. Það kom líka fyrir að hún ráðlegði sjóðfélögum, sem ákveðið höfðu að gera skiptasamninga, að hugsa sinn gang vegna þess að slíkir samningar væru beinlínis óskynsamlegir í þeirra tilvikum.
Ábendingar Þóreyjar vöktu greinilega athygli í fundarsalnum í Hörpu og einn lögmaður spurði hvert hann ætti að vísa skjólstæðingi sem kynni að banka upp á til að leita svara eða ráðlegginga um skiptingarsamning. Hún svaraði því til að rétt væri að snúa sér til starfsfólks lífeyrissjóða um ráð og leiðbeiningar. Sjálf er hún frummælandi á árlegum fundum með starfsmönnum réttindadeilda lífeyrissjóða til að upplýsa þá meðal annars um slíka samninga og lög þar að lútandi.
„Ég hef rekið mig á að margir telja skiptingu lífeyrisréttinda vera skilnaðarúrræði en þannig er lagaákvæðið alls ekki hugsað heldur sem jafnréttis- eða sanngirnismál.
Meginreglan er auðvitað sú að lífeyrisréttindi eru persónubundin. Um þau er ekki hægt að semja og þau eru hvorki framseljanleg né aðfararhæf. Lífeyrisréttindi er ekki unnt að veðsetja og þau eru tekin út fyrir sviga við gjaldþrot.
Lífeyrisréttindi eru því nánast „heilög“ í þessum skilningi en ákvæði í 3. mgr. 14. greinar laga um lífeyrissjóði er undantekningarregla. Hún á við um hjón og sambýlisfólk og tekur eingöngu til lífeyrisréttinda sem falla til á meðan hjúskapur eða óvígð sambúð varir eða hefur varað.
Samningar þurfa að vera gagnkvæmir og jafnir. Þeir geta einungis varðað lífeyrisréttindi og eftirlaun úr lífeyrissjóðum en ekki tekið til makalífeyris eða örorkulífeyrisréttinda.“
Lögin gera ráð fyrir þremur möguleikum í samningum hjóna og sambýlisfólks:
Samningar um skiptingu eru tiltölulega sjaldgæfir þegar að er gáð, einungis nokkur hundruð slíkir hafa verið gerðir. Þórey segir að algengast sé að þar sé kveðið bæði á um skiptingu áunninna réttinda og framtíðarréttinda.
„Við getum tekið hjúkrunarheimilin sem praktískt dæmi um skiptingu eftirlaunagreiðslna. Stór hluti lífeyris fer oft í rekstur þeirra, til að greiða fyrir rekstur hjúkrunarheimila. Algengt er að annað hjóna fari þar inn en hitt sé eftir heima og reki hús og heimili. Ef sá sem fer inn á hjúkrunarheimilið fær háar lífeyrisgreiðslur en makinn litlar sem engar er eðlilegt að dreifa greiðslunum til að sá sem heima býr hafi eitthvað til framfærslu sinnar og heimilisrekstrarins.
Víxlverkun vegna tekjutenginga gagnvart greiðslum frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins flækir vissulega málið eða getur gert það. Það þarf því að kanna í hverju tilviki hvernig landið liggur svo niðurstaðan verði ekki sú að allt étist upp vegna þess að greiðslur frá Tryggingastofnun dragast saman. Þá væri betur heima setið en af stað farið, í orðsins fyllstu merkingu. Engan veginn er því gefið mál að svona úrræði henti öllum.“
„Já, í mörgum tilvikum er það eindregið svo en í öðrum ekki. Ég tel til dæmis þessa leið varhugaverða fyrir fólk sem á mikil réttindi í eldri eftirlaunakerfum (hlutfallssjóðum), til að mynda B-deild LSR og í lífeyrissjóðum sveitarfélaganna. Þar er sterkur eftirlaunaréttur og ævilangur makalífeyrir, kerfi sem byggt var upp í anda þess tíma að karlinn væri útivinnandi en konan heima að hugsa um börn og bú.
Ævilangur makalífeyrisréttur var hugsaður henni í hag og við slíkar aðstæður myndi samningur um skiptingu lífeyrisgreiðslna skapa óeðlilega stöðu – fyrir karlinn. Konan fengi helminginn af hans hlut og fullan makalífeyri að auki. Karlinn léti frá sér helming sinna greiðslna en ætti engan rétt á makalífeyri.
Slíkt dæmi sýnir að hvert tilvik verður að kanna en fyrir mér vakir að benda á lagaheimildina og möguleika til jöfnuðar sem lagaákvæðin veita. Slíkt er alltaf athugunar virði.“