Skattaafslátturinn er lykilatriði við ráðstöfun séreignarsparnaðar

Skattaafslátturinn er lykilatriði við ráðstöfun séreignarsparnaðar

 

Skattaafslátturinn er lykilatriði

„Skattaafslátturinn er lykilatriði í því úrræði sem nú stendur þeim til boða sem hyggjast festa kaup á sinni fyrstu fasteign,“ segir Snædís Ögn Flosadóttir, framkvæmdastjóri Eftirlaunasjóðs Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Lífeyrissjóðs starfsmanna Búnaðarbankans. Sjóðirnir eru sjálfstæðir en Arion banki annast rekstur þeirra og eignastýringu.

Snædís Ögn tók fyrir hönd Landssamtaka lífeyrissjóða þátt í vinnu starfshóps á vegum fjármálaráðherra vegna ráðstöfunar séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð. Lögin þar að lútandi, nr. 111/2016, tóku gildi núna 1. júlí 2017 og eru liður í opinberum stuðningi við kaupendur á húsnæðismarkaði.

Hún er iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands, með próf í verðbréfamiðlun og starfaði á eignastýringarsviði Arion banka áður en hún tók við framkvæmdastjórn lífeyrissjóðanna tveggja.

 

Skilvirk og góð sparnaðarleið

„Lagaheimildir til að nýta skattfrjálsan séreignarsparnað til íbúðarkaupa og til að greiða niður húsnæðislán hafa verið í gildi frá miðju ári 2014. Þær virka vel og skila sýnilegum árangri.

Ráðstafanirnar voru kynntar vel á sínum tíma og þúsundir manna hafa samið um skattfrjálsan séreignarsparnað til húsnæðiskaupa. Staðreyndin er samt sú að færri notfæra sér þennan kost en gert var ráð fyrir árið 2014. Kynningin og upplýsingarnar virðast því að einhverju leyti ekki hafa ratað í réttan farveg til að ná augum og eyrum allra sem málið varðar.

Þeir sem verja skattfrjálsum séreignarsparnaði til húsnæðiskaupa eru almennt ánægðir með þetta fyrirkomulag enda er það einfalt og skilvirkt. Nú hefur það verið framlengt með lögum fram á mitt ár 2019 en fólk verður að staðfesta við embætti ríkisskattstjóra  að það vilji spara áfram á þennan hátt. Fyrri lög og umsókn byggð á þeim gildir einungis fram á mitt ár 2017.“

Staðfesting fer fram á umsóknarsvæði viðkomandi á vefnum rsk.is.

 

Allt að hálf milljón á ári í tíu ár

Sérhannaðar ráðstafanir fyrir nýliða á fasteignamarkaði eru tilefni samtals við Snædísi Ögn hér og nú.

Lykilatriði laganna sem tóku gildi 1. júlí 2017:

 Skilyrði að viðkomandi sé að kaupa sína fyrstu fasteign eða hafi keypt sína fyrstu fasteign eftir 1. júlí 2014.

  • Heimilt er að nýta skattfrjálsan séreignarsparnað að hámarki hálfa milljón króna á ári eða alls fimm milljónir króna á tíu árum til íbúðarkaupa.
  • Heimilt er að nýta allt að 4% framlag launamanns og 2% framlag frá launagreiðanda.
  • Heimild til að nýta skattfrjálsan séreignarsparnað til fyrstu íbúðarkaupa tekur til samfelldra tíu ára.
  • Skilyrt er að viðkomandi eigi að minnsta kosti 30% í nýju íbúðinni.
  • Tveir geta keypt fyrstu íbúð saman og nýtt hvor um sig hámarksheimild uppfylli þeir önnur skilyrði. Þeir mega nýta sér samanlagðan skattaafslátt upp á tíu milljónir króna á tíu árum (allt að hálfri milljón króna á ári hvor kaupandi).
  • Hægt er að selja fyrstu íbúð og kaupa aðra á tíu ára tímabilinu án þess að hrófla við sparnaðarsamningnum en þá fylgir sögu að kaupsamning um nýja íbúð skal gera innan eins árs frá því fyrri íbúð var seld.

 Skattaafslátturinn og framlag launagreiðanda skiptir máli

„Við getum stillt upp einföldu skýringardæmi með hámarksséreignasparnaði til íbúðarkaupa, hálfri milljón króna á ári í tíu ár eða alls fimm milljónum króna. Af heildarupphæðinni eru liðlega tvær milljónir króna eigið framlag kaupandans, tekið af útborguðum launum. Hitt er annars vegar skattaafsláttur og hins vegar framlag launagreiðanda.“

Snædís nefnir sérstaklega þrjá hópa sjóðfélaga lífeyrissjóðanna til að eiga orðastað við og beinir því til þeirra að kynna sér vel nýjar lagaheimildir um skattfrjálsan séreignarsparnað og nýta sér þær: 

  1. Þeir sem ekki hafa keypt fasteign en munu gera það fljótlega eða einhvern tíma síðar. Með því að hefja greiðslur í viðbótarlífeyrissparnað hafa viðkomandi val um það að nýta uppsafnaðan sparnað til útborgunar þegar kemur að fasteignakaupum.
  2. Þeir sem keyptu fyrstu fasteign eftir 1. júlí 2014, og hafa ekki nýtt sér skattfrjálsan séreignarsparnað til húsnæðiskaupanna, geta komist inn í nýja kerfið en verða að sækja um það fyrir lok árs 2017.  
  3. Þeir sem keyptu fyrstu fasteign eftir 1. júlí 2014, byrjuðu að greiða inn á lánin sín með skattfrjálsri séreign og gera það nú. Þessi hópur getur fært sig yfir í nýja úrræðið og nýtur þá skattfrelsis séreignarsparnaðar í samfellt tíu ár en ella aðeins í tvö ár til viðbótar.

          Sama á við um þennan hóp og þann sem um er fjallað í efnisgrein nr. 2: Sækja verður um breytinguna fyrir árslok 2017.

 

Hægt að létta greiðslubyrði óverðtryggðra lána

Snædís Ögn bendir á að fólk geti tekið út uppsafnaðan séreignarsparnað þrjú ár aftur í tímann, það er að segja til miðs árs 2014, til að nýta til kaupa á fyrstu íbúð. Þannig birtist afturvirkni laganna.

Þá er það nýmæli að heimila íbúðarkaupanda með óverðtryggð lán að velja að láta mánaðarleg iðgjöld sín minnka afborgun samkvæmt greiðsluseðli og létta þannig greiðslubyrði lánanna. Greiðslubyrði óverðtryggðra lána er þyngri framan af og getur því gert þau óálitlegri í augum íbúðarkaupenda.

Lagákvæðinu er ætlað að gera óverðtryggð lán álitlegri en ella en þetta er valfrjáls kostur.  

  • Á fyrsta ári má nýta allt iðgjaldið til að lækka greiðslubyrðina.
  • Á öðru ári má nýta 90% iðgjalds til að lækka greiðslubyrðina en 10% greiðast inn á höfuðstól lánsins.
  • Á þriðja ári yrðu hlutföllin 80% og 20% og þannig tappast þetta niður ár frá ári þar til allt iðgjaldið greiðist inn á höfuðstól óverðtryggða lánsins.

 

Sparnaðurinn skilar sér áratugum saman

„Vert er að hafa í huga að skattfrjáls séreignarsparnaður í tíu ár skilar sér áfram eftir að áratugurinn er að baki. Fólk sem tekur húsnæðislán til 40 ára og nýtir séreignarsparnaðinn minnkar greiðslubyrðina svo lengi sem eftirstöðvar lánanna vara.

Þannig aukast ráðstöfunarfjármunir íbúðareigendanna í raun og veru áratugum saman með því að lækka höfuðstólinn á fyrstu tíu árum lánstímans með séreignarsparnaði.“