Siðferðileg viðmið í fjárfestingum lífeyrissjóða á morgunfundi

Siðferðileg viðmið í fjárfestingum lífeyrissjóða á morgunfundi

 

Siðferðileg viðmið í fjárfestingum lífeyrissjóða á morgunfundi

„Ágætt er að taka fyrstu skrefin hér á heimavelli og gera ráðamönnum fyrirtækja grein fyrir því að viðmið um siðferðileg viðmið í fjárfestingum eru veruleiki en ekki orðin tóm. Þannig drógu framsögumenn á morgunfundi efnislega saman í lokin stöðu og verkefni allra nánustu framtíðar við að breiða út boðskap um siðferði og fjárfestingar í íslensku viðskiptalífi.

Iceland SIF og Landssamtök lífeyrissjóða stóðu sameiginlega að samkomunni og Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri LL, stýrði fundi. Samtökin Iceland SIF voru stofnuð í nóvember 2017 til að „efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.“ Stofnendur voru fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og tryggingafélög.

Meðal frummælenda á morgunfundinum voru liðsmenn úr vinnuhópi IcelandSIF sem kynntu bæði erlend viðmið og praktíska, íslenska reynslu við siðferðilegt mat í fjárfestingum. Farið var til dæmis rækilega yfir starfsemi og framkvæmd norrænna áhrifasjóða í þessum efnum: Norska olíusjóðsins, AP sjóðanna í Svíþjóð og ATP sjóðsins í Danmörku. Áður höfðu Salvör Nordal, siðfræðingur og Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur Fjármálaeftirlitsins, fjallað um siðferðileg viðfangsefni og siðareglur í kjölfar efnahagshrunsins og viðmið í OECD og EIOPA (The European Insurance and Occupational Pensions Authority) varðandi upplýsingamiðlun og eftirfylgni er varðar samfélags- og umhverfisþætti.

Fundarsalurinn á Grandhóteli var þéttsetinn og áhugi mikill fyrir málefni dagsins. Gestir voru eindregið á því að framsöguerindi og umræður að þeim loknum hefðu verið fróðlegar, upplýsandi og hvetjandi til dáða í þessum efnum hér á heimavelli.

IcelandSIF

Glærur frá fundinum

 Myndir frá fundinum: