Þann 15. júní sl. voru samþykktar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Stærsta breytingin felur í sér hækkun á lágmarksiðgjaldi í lífeyrissjóð úr 12% í 15,5%. Samhliða hækkar lágmarkstryggingarverndin úr 1,4% í 1,8%.
Lífeyrissjóðum er heimilt í samþykktum sínum að bjóða sjóðfélaga upp á að ráðstafa allt að 3,5% í tilgreinda séreign sem er hluti af lágmarkstryggingarvernd.
Lagabreytingin tekur gildi 1. janúar 2023.
Sjóðfélögum sem eiga tilgreinda séreign verður gert heimilt að ráðstafa henni skattfrjálst við kaup á fyrsta íbúðarhúsnæði til viðbótar við gildandi úrræði um ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar. Enn fremur hafa þeir sem ekki hafa verið eigendur íbúðarhúsnæðis í fimm ár heimild til að nýta sömu úrræði til ráðstöfunar á séreignarsparnaði sem væru þeir kaupendur fyrstu íbúðar.
Með lögunum eru jafnframt gerðar breytingar á tekjutengingum milli greiðslna frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins.