Landssamtök lífeyrissjóða réðust nýverið í gerð kennslumyndbands sem gengur undir nafninu „Lífeyrissjóðakerfið á 90 sek“. Í myndbandinu er leitast við að útskýra hlutverk lífeyrissjóða á léttan og skemmtilegan hátt á rúmlega 90 sekúndum. Myndbandið hefur verið notað í kennslu í framhaldsskólum í samstarfi við ASÍ undanfarið og hefur framsetning efnisins vakið mikla lukku. Um grafíkina sáu Hermann og Freymar hjá Thankyou en hugmynd, handrit, útlit og hönnunarstjórn var í höndum Dags Hilmarssonar.
Landssamtökin hafa nú látið þýða myndbandið yfir á ensku og pólsku og er það aðgengilegt á forsíðum enska og pólska hluta vefsíðunnar Lífeyrismál.is. Myndböndin verða notuð í kynningarstarfi landssamtakanna og er stofnunum og félagasamtökum heimil notkun í fræðsluskyni. Myndböndin eru öll aðgengileg til niðurhals á rás Landssamtaka lífeyrissjóða á Youtube:
Lífeyrissjóðakerfið á íslensku, ensku og pólsku á 90 sek.