Bók Gunnars Baldvinssonar, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins, sem kennd var í um 30 grunnskólum í vetur ýmist sem hluti af stærðfræði, lífsleikni eða í valfagi í fjármálalæsi, er uppstaðan í námsefni fjármálalæsisverkefnisins Fjármálavits.
Fjármálavit er námsefni fyrir nemendur á efsta stigi grunnskóla í eigu Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtaka lífeyrissjóða (LL), þróað í samvinnu við kennara og kennaranema.
Tilgangurinn er að veita innblástur í kennslu um fjármál. Námsefnið er byggt á umræðum og verkefnum og til stuðnings eru stutt myndbönd sem nemendur geta horft á til að tengja við viðfangsefnið.
Í byrjun hvers vetrar fá allir 10. bekkir í grunnskólum landsins boð um heimsókn Fjármálavits þar sem nemendur leysa verkefni og spjalla um fjármál. Heimsóknir eru skólum að kostnaðarlausu og eru í boði allan veturinn.
Nánari upplýsingar á fjármálavit.is og fjarmalavit@fjarmalavit.is