Er íslenska lífeyriskerfið gott? Mun það ná markmiðum um nægjanlegan ellilífeyri?

Er íslenska lífeyriskerfið gott? Mun það ná markmiðum  um nægjanlegan ellilífeyri?

Íslenska lífeyriskerfið kemur vel út í samanburði

Töluverð umræða hefur orðið um lífeyrismál á Íslandi eftir að ný skipan ellilífeyris frá Tryggingastofnun tók gildi í ársbyrjun. Hér verður lýst rannsóknum og greiningu sem Landssamtök lífeyrissjóða áttu hlut að og leituðust við að svara þessum spurningum: Er íslenska lífeyriskerfið gott? Mun það ná markmiðum um nægjanlegan ellilífeyri? Hvernig kemur það út í samanburði við kerfi nágrannalanda?

Hér er byggt á nýrri samantekt sem starfshópur á vegum landssamtakanna kynnti í marsbyrjun og á skýrslu um fjölþjóðlega rannsókn á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD með styrk frá Evrópusambandinu sem kynnt var fyrir tveimur árum. Ítarlegri umfjöllun er að finna á vefnum Lífeyrismál.is.

Er lífeyriskerfið gott?

Greiningin sýnir að uppbygging lífeyriskerfisins er í góðu samræmi við ráðleggingar alþjóðlegra stofnana um þriggja stoða kerfi:

  1. Almannatryggingar veiti vernd gegn alvarlegri fátækt.
  2. Starfstengdir lífeyrissjóðir byggi upp sparnað til að fólk þurfi ekki að sæta verulegri skerðingu lífsgæða þegar að töku ellilífeyris kemur.
  3. Valfrjáls séreignarsparnaður auki sveigjanleika, t.d. til að fara fyrr á lífeyri en ella væri mögulegt eða til að hafa meira fjárhagslegt svigrúm á fyrstu lífeyrisárum. 

Mun kerfið veita nægjanlegan lífeyri?

Í OECD-rannsókninni voru reiknuð út áætluð lífeyrisréttindi allra landsmanna á vinnumarkaði í lok árs 2012. Niðurstöður sýndu að íslenska lífeyriskerfið stenst með ágætum þær kröfur sem OECD gerir til lífeyriskerfa:

  • Sjóðssöfnun er mikil.
  • Öryggisnet almannatrygginga er mikilvægt fyrir lágtekjuhópa.
  • Lífeyrisþegar framtíðarinnar fá almennt meiri lífeyri en nú er greiddur.

Rannsóknin beindist einnig að því að greina veikleika og þá einkum hvort einhverjir hópar þjóðfélagsins ættu á hættu að lenda undir viðmiðum um nægan lífeyri. Í skýrslunni eru fjögur atriði nefnd sem veikleikar:

  • Lífeyrir er almennt talinn lágur um þessar mundir.
  • Verulegur munur er á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og á almennum vinnumarkaði.
  • Tekjutengingar almannatrygginga eru strangar.
  • Á óvart kemur hversu margir ná ekki viðmiði um 56% lífeyrishlutfall úr samtryggingarsjóðum (einkum vegna rofs í iðgjaldasögu).

Í skýrslunni er bent á mögulegar úrbætur, svo sem að auka sveigjanleika í lífeyristöku og iðgjaldagreiðslum til að fólk geti bætt sér upp slaka iðgjaldasögu á yngri árum, svo og að samræma lífeyriskerfi á almenna vinnumarkaðnum og hjá hinu opinbera.

Hvernig stendur kerfið í samanburði við önnur lönd?

Í nýju samantektinni er íslenska lífeyriskerfið borið saman við kerfi Bretlands, Hollands, Svíþjóðar og Danmerkur. Samanburðurinn byggir að mestu á gögnum frá OECD, annars vegar um væntan lífeyri nýrra starfsmanna og hins vegar um tekjur eldri borgara í löndunum fimm. Byggt er á tölum frá árinu 2013, en nýjustu breytingar á íslenska almannatryggingakerfinu og fjárhæðum koma ekki fram í skýrslum OECD fyrr en eftir 2-3 ár.

Íslenska lífeyriskerfið kemur vel út af tveimur ástæðum:

  • Vernd gegn alvarlegri fátækt er náð með því að beina greiðslum almannatrygginga mark­visst að láglaunafólki og þeim sem verst standa, en hinir fá lítið eða ekkert.
  • Réttindakerfi starfstengdu lífeyrissjóðanna geta tryggt nægilegt lífeyrishlutfall, að vísu eftir lengri starfsævi en tíðkast í hinum löndunum.

 Sérstaða íslenska lífeyriskerfisins í samanburðinum

  • Ísland er með afgerandi hæst hlutfall ellilífeyris úr söfnunarkerfum (starfstengdum lífeyrissjóðum og séreignarsparnaði). Í hinum löndunum kemur meirihluti lífeyris úr opin­berum gegnumstreymiskerfum.
  • Jöfnuður í tekjum er meiri en í hinum löndunum, hér eru hlutfallslega færri undir fátæktarmörkum og lífeyrisþegar koma allvel út hvað þetta varðar í samanburði við aðra lands­menn og við lífeyrisþega hinna landanna.
  • Íslenska kerfið sker sig úr með mikilli tekjutengingu lífeyris úr opinbera kerfinu. Ísland er jafnframt hið eina þessara landa þar sem lífeyrir úr opinbera kerfinu fellur niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum fara yfir tiltekin mörk.
  • Útgjöld hins opinbera til ellilífeyris sem hlutfall af landsframleiðslu eru mun minni en í hinum löndunum fjórum. Að hluta má rekja þetta til þess að hlutfall eldri borgara af heildarmannfjölda er lægra en í samanburðarlöndunum.

Það bætir útkomu Íslands, að fólk er að jafnaði mun lengur virkt á vinnumarkaði en í hinum löndunum, fer seinna á lífeyri og ávinnur sér þannig meiri réttindi.

 Opna samantektina á vefsniði

 Opna samantektina á pdf sniði