Í júní sl. birti Fjármálaeftirlitið (FME) samantekt um stöðu lífeyrissparnaðar, samtryggingar og séreignar við árslok 2016.
Í fréttatilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu segir m.a. að tryggingafræðileg staða samtryggingadeilda lífeyrissjóða hafi versnað lítillega milli ára og að mikilvægum áfanga hafi verið náð til fullrar fjármögnunar A-deilda lífeyrissjóða opinberra starfsmanna er ríki og sveitarfélög ákváðu að gera upp skuldbindingar sínar með samtals 153 milljarða króna fjárframlagi. Breytingin fólst í því að réttindakerfum sjóðanna var breytt til samræmis við sjóði á almennum vinnumarkaði. Ríkið greiddi, við árslok 2016, 117 milljarða króna til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og sveitarfélögin greiddu sinn hluta vegna breytinganna 31. maí síðastliðinn.
Stafir lífeyrissjóður og Sameinaði lífeyrissjóðurinn sameinuðust á liðnu ári með um 320 milljarða króna eignir, sem gerir sameinaðan sjóð að fjórða stærsta lífeyrissjóði á landinu.
Eignir alls lífeyriskerfisins voru í árslok 2016 um 3.726 milljarðar króna, eða 154% af vergri landsframleiðslu (VLF). Til samanburðar voru efnahagsreikningar þriggja stærstu viðskiptabankanna um 3.200 milljarðar króna og lánamarkaðarins í heild um 4.250 milljarðar króna.
Eignir lífeyriskerfisins, sem hlutfall af VLF lækkuðu um þrjú prósentustig frá fyrra ári vegna lægri ávöxtunar sjóðanna og aukinnar landsframleiðslu.
Eignir samtryggingadeilda lífeyrissjóða jukust um nærri 8% og voru 3.194 milljarðar króna í árslok 2016. Séreignasparnaður í vörslu lífeyrissjóðanna nam 340 milljörðum króna og 192 milljörðum króna hjá öðrum vörsluaðilum séreignasparnaðar. Aukning frá fyrra ári nemur 6% hjá þeim fyrrnefndu og 8% hjá þeim síðarnefndu.
Fréttatilkynningu um stöðu lífeyrissjóðanna 2016 má nálgast á vef FME.
Samantekt FME á ársreikningum lífeyrissjóða og talnaefni úr skýrslunni má nálgast hér.