Viðskiptablaðið, 7. apríl 2017
Þorbjörn Guðmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, furðar sig á að í umræðunni um aðgerðir HB Granda á Akranesi hafi einhverjir verið að tengja þær við lífeyrissjóðina.
„Það er algerlega fráleit nálgun að lífeyrissjóðir komi inn í fyrirtæki og krefjist þess að lögð sé niður þessi eða hin starfsemin til þess að ná upp einhverri arðsemi,“ segir Þorbjörn.
„Lífeyrissjóðirnir eru fyrst og fremst langtímafjárfestar sem ætlast auðvitað til þess að fjárfestingin skili góðum arði til lengri tíma, en að lífeyrissjóðir séu að koma inn og gera kröfur um einstaka breytingar er fráleitt.“
Þó að Þorbjörn segist alltaf hafa verið hlynntur auknu beinu lýðræði lífeyrisrétthafa í stjórnum sjóðanna, þá tekur hann að hluta til undir með Björgólfi Jóhannssyni, fráfarandi formanni Samtaka atvinnulífsins, sem hefur lýst áhyggjum af því að með minnkandi aðkomu atvinnulífsins að stjórnum þeirra sé hætta á auknum áhrifum ríkisins á starfsemi lífeyrissjóðanna.
„Já, það er alltaf hætta á því,“ segir Þorbjörn spurður hvort þessu myndi fylgja að sjóðirnir gætu orðið of félagslega þenkjandi.
„Ríkisstjórnir á hverjum tíma eru oft að horfa til þess að lífeyrissjóðir eigi að gera hitt og þetta, en þó að það sé auðvitað mikilvægt að lífeyrissjóðir horfi til síns samfélagslega hlutverks, má aldrei ganga á það grundvallarmarkmið lífeyrissjóða, sem er að taka við iðgjöldunum og ávaxta þau á sem hagkvæmastan hátt, innan ákveðinna áhættumarka, og svo greiða út lífeyri.
Þessu má ekki missa sjónar á, því ef við förum að setja eitthvert félagslegt hlutverk umfram þetta á lífeyrissjóðina, þá sé ég ekki hvar það endar.“
Þorbjörn segir að áður en hægt sé að taka ákvörðun um hvort auka eigi beina kosningu í stjórn lífeyrissjóða þurfi að ákveða hvernig það verði framkvæmt.
Nánar má lesa um málið í Lífeyrir & Tryggingar, Fylgiriti Viðskiptablaðsins 6. apríl.