Viðskipti með erlend verðbréf: Mikil velta en lítil kaup.

Nettókaupin í mars voru aðeins 891 m.kr, sem er mun lægri kaup en á sama tíma í fyrra, en þá námu kaupin 6608 m.kr. Þær lækkanir sem átt hafa sér stað á erlendum mörkuðum undanfarin misseri virðast hafa haft þau áhrif að stofnanafjárfestar fari sér hægar við kaup á erlendum verðbréfum og bíði átekta.

Í mars voru viðskipti innlendra aðila með erlend verðbréf fyrir um 19,0 ma.kr. en þau hafa aðeins einu sinni áður (sept. 2000) verið meiri í einum mánuði. Kaup námu um 9,9 ma.kr. og sala/innlausn um 9,0 ma.kr. Sala/innlausn erlendra verðbréfa hefur aldrei verið meiri en í marsmánuði 2001 eða um 9,0 ma. kr. Nettókaupin í mars (891 m.kr) eru mun lægri en nettókaupin í fyrra sem voru um (6,6 ma.kr.). Meginskýringin á þessum umskiptum er sú að nettókaup á hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum í fyrra námu um 4,2 ma. kr. samanborið við nettósölu fyrir um 0,2 ma. kr. í marsmánuði 2001. Neikvæð staða á viðskiptum með hlutdeildarskírteini hefur aðeins einu sinni átt sér stað áður en það var í desember 1998. Önnur skýringin er sú að nettókaup á hlutabréfum í erlendum fyrirtækjum námu um 2,2 ma. kr. í marsmánuði 2000 en námu um 1,2 ma. kr. í síðasta mánuði. Viðskipti með hlutabréf erlendra fyrirtækja hafa aldrei verið meiri (um 15,9 ma.kr.) og viðskiptaaðilar því mjög iðnir við kaup og sölu á hlutabréfum í erlendum fyrirtækjum. Sú niðurstaða kemur eigi á óvart þegar höfð er hliðsjón af því að hlutabréf í Bandaríkjunum lækkuðu töluvert á fyrsta ársfjórðungi ársins. Verðfall varð einnig á evrópskum mörkuðum í marsmánuði. Ýmis kauptækifæri voru því fyrir hendi í marsmánuði sem skammtímafjárfestar virðast hafa nýtt sér. Mikil sala/innlausn á hlutabréfum erlendra fyrirtækja bendir þó til þess að þolinmæði sumra fjárfesta gagnvart dagsveiflum á verði hlutabréfa hafi verið takmörkunum háð. Þær lækkanir sem átt hafa sér stað á erlendum mörkuðum undanfarin misseri virðast einnig hafa haft þau áhrif að stofnanafjárfestar fari sér hægar við kaup á erlendum verðbréfum og bíði átekta. Gengislækkun íslensku krónunnar hefur líkast til einnig haft nokkur áhrif á viðhorf fjárfesta.


Heimild: Tölfræðisvið Seðlabanka Íslands.