Landssamtök lífeyrissjóða telja að það sé eitt af verkefnum samtakanna að varðveita þá þjóðarsátt, sem náðist um lífeyrissjóðina með setningu lífeyrislaganna og munu samtökin leita allra leiða til að sú þjóðarsátt haldist. Þetta kom fram í setningarræðu formanns LL, Þóris Hermannssonar, á fulltrúaráðsfundi samtakanna í gær.
Þórir Hermannsson gat þess að á undanförnum vikum hafi lífeyrissjóðirnir og stjórnendur þeirra legið undir mjög óvæginni gagnrýni, bæði frá fjölmiðlum en ekki síður frá sumum ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Orðrétt sagði Þórir m.a. í setningarræðu sinni: "Virðist mér helst að eftir því sem eignir þær vaxa, sem lífeyrissjóðunum er skv. lögum falið að varðveita og ávaxta, þá annaðhvort fjölgar þeim aðilum, eða málflutningur þeirra verður meira áberandi, sem virðast sjá ofsjónum yfir því að til skuli vera svo mikill bundinn sparnaður í landinu en sem stjórnvöld, eða stjórnmálamenn, hafa engan ráðstöfunarrétt yfir. Þetta veldur því að ég óttast að í framtíðinni verði þessi bundni sparnaður, sem er í eigu almennings í landinu og ætlaður einungis til að sjá þeim hinum sömu fyrir lágmarks framfærslutekjum þegar þeir hverfa af vinnumarkaði, fyrir vaxandi þrýstingi af hálfu stjórnmálamanna. Við sjáum það á undangenginni gagnrýni, þegar ávöxtun sjóðanna lækkar frá því að vera mjög há, að það er fjöldi manna sem fullyrða að þeim sjóðum sem eru á lægri hluta ávöxtunarskalanns sé mjög illa stjórnað og eins séu heimildir sjóðanna til fjárfestinga allt of frjálsar, sérstaklega erlendis. Ég óttast því að við sjáum mun meiri þunga í forsjárhyggju stjórnmálamanna, sem vilja í framtíðinni hafa meira með þessar eignir að gera en nú er. Það þarf því að standa dyggan vörð um stöðu lífeyrissjóðanna og að reyna að tryggja þeim að geta áfram fjárfest óhindrað á frjálsum fjármálamarkði eins og aðrar fjármálastofnanir gera, þannig tryggjum við sjóðfélögum lífeyrissjóðanna hæstan lífeyri. Nú nýverið hefur verið lagt fram frumvarp til laga á Alþingi um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997, sem ég fullyrði að sé aðeins fyrsta skrefið til að rjúfa það öfluga og ábyrga samtryggingarkerfi sem byggt hefur verið upp innan lífeyrissjóðakerfisins á löngum tíma og með þessu frumvarpi, ef að lögum verður, er hreinlega rofin sú sátt sem náðist með setningu laganna um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í greinargerð með frumvarpinu segir meðal annars, sem er mjög athyglisvert: "Valfrelsið, sem hér er lagt til, mun flýta þeirri þróun, sem þegar er hafin, að lífeyrissjóðir veiti réttindi háð kyni, aldri og jafnvel fjölskyldustöðu." Ljóst er að það verður ekki mikið eftir af núverandi samtryggingarákvæðum lífeyrissjóðanna, ef frumvarp þetta nær fram að ganga á Alþingi. Þar með verður kastað fyrir róða þeirri þjóðarsátt sem náðist með setningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem samþykkt var í desember 1997. Landssamtök lífeyrissjóða telja að það sé eitt af verkefnum samtakanna að varðveita þá þjóðarsátt, sem náðist um lífeyrissjóðina með setningu umræddra laga og munu samtökin leita allra leiða til að sú þjóðarsátt haldist."