Umtalsverður samdráttur í viðskiptum með erlend verðbréf í júní s.l.

Hreint fjárútstreymi til útlanda vegna viðskipta með erlend verðbréf nam í júní s.l. alls 3.764 m.kr. sem er umtalsverð lækkun miðað við júnímánuð í fyrra, þegar nettókaupin námu alls 6.351 m.kr.

Þrátt fyrir minna fjárstreymi í júnímánuði voru nettókaup fyrstu sex mánuði þessa árs um 26,5 ma.kr., en á sama tíma í fyrra voru þau einungis 16,3 ma.kr. Ljóst er því á þessum tölum að viðskipti við útlönd með erlend verðbréf, einkum með hlutabréf, hafa í heildina aukist mikið á þessu ári borið saman við fyrstu sex mánuði síðasta árs. Hver þróunin verður þegar upp verður staðið í lok þessa árs, skal ósagt látið. Þrátt fyrir verulega mikil kaup fyrstu fjóra mánuði þessa árs, er þó ljóst að heildarviðskiptin með erlend verðbréf hafa dregist saman í maí og júnímánuði, borið saman við sömu mánuði í fyrra. Í lok júní s.l. námu erlend verðbréf í eigu lífeyrissjóðanna 119.205 m.kr. og höfðu aukist um rúma 22 miljarða króna frá árslokum síðasta árs. Heildareignir lífeyrissjóðanna námu alls 555.668 m.kr. í lok júní s.l. borið saman við 517.928 m.kr. í árslok 1999. Erlend verðbréf í eigu lífeyrissjóðanna námu rúmum 119 miljarðar króna í lok júní, eins og áður segir, og var erlend eign sjóðanna nær eingöngu í hlutabréfum. Erlend verðbréf í eigu lífeyrissjóðanna námu 21,5% af heildareignum sjóðanna í lok júní s.l. og er það svipað hlutfall og í lok maí s.l.


Heimild: Tölfræðisvið Seðlabanka Íslands.