Starfshópur stærstu lífeyrissjóðanna myndaður vegna byggingu álvers á Reyðarfirði.

Undanfarin misseri hefur Hæfi hf. unnið að undirbúningi að ákvörðun um byggingu álvers í Reyðarfirði. Hæfi hf. var stofnað á árinu 1999 sem vettvangur fyrir eign Íslendinga í Reyðaráli hf. sem Hæfi hf. á helming í á móti Hydro Aluminium.

Stjórnendur Hæfis h.f. stóðu fyrir kynningarfundi um stöðu verkefnisins hinn 5. júní s.l. fyrir fjárfesta þar sem gerð var grein fyrir helstu þátttum verkefnisins. Á fundinum gerði Þórður Friðjónsson, þjóðhagsstofustjóri, grein fyrir efnahagslegum áhrifum Reyðarálsverkefnisins. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, gerði grein fyrir aðferðum Landsvirkjunar til að meta arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Geir A. Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Hæfis hf., gerði grein fyrir mati á arðsemi verksmiðjunnar, samvinnu við Hydro Aluminium um verkefnið og helstu atriðum einstakra samninga. Sanjay Saraf, Head of Primary Aluminium Metal, CRU International Ltd., gerði grein fyrir mati CRU á horfum á mörkuðum fyrir ál og Steven Smith, Assistant Director (Mining and Metals) Global Project and Export Finance, Dresdner Kleinwort Wasserstein, gerði grein fyrir mati Dresdner á lánshæfi verkefnisins. Að fundi loknum ákváðu fulltrúar lífeyrissjóðanna sem setið höfðu fundinn að fara þess á leit við framkvæmdastjóra 6 stærstu lífeyrissjóðanna að þeir gæfu kost á sér í starfshóp til þess að vinna að athugun og undirbúningi að hugsanlegri aðkomu lífeyrissjóðanna sem fjárfesta og lánveitenda að verkefninu. Fram kom á fundinum, í máli forsvarsmanna Hæfis, að til þess að unnt yrði að undirbúa lánsfjármögnum frá erlendum lánastofnunum síðla sumars og halda núverandi tímaáætlun væri æskilegt að skilyrt þátttökuloforð lífeyrissjóðanna lægju fyrir í lok júlí.