Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað starfshóp um starfsendurhæfingu í samræmi við samþykktir málsþings um starfsendurhæfingu, sem haldið var í Reykjavík í nóvember á síðasta ári, um að þeir aðilar í þjóðfélaginu sem koma með beinum eða óbeinum hætti að starfsendurhæfingu þurfi nauðsynlega að samhæfa krafta sína, fjármuni og framtíðarsýn.
Til þess er ætlast að tillögur starfshópsins lúti að bættri þjónustu á sviði starfsendurhæfingar og að haft verði að leiðarljósi þarfir þeirra einstaklinga sem þurfa aðstoð við að fóta sig á nýjum eða breyttum starfsvettvangi. Starfshópurinn er þannig skipaður: Sigurður Thorlacius, tryggingayfirlæknir, formaður, tilnefndur af Tryggingastofnun ríkisins. Guðmundur Hilmarsson, starfsmaður Menningar- og fræðslusambands alþýðu, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands. Gunnar Kr. Guðmundsson, endurhæfingarlæknir, tilnefndur af Samstarfsráði um endurhæfingu. Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Landssamtökum lífeyrissjóða. Ragnar Árnason, lögfræðingur, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins. Sigurður P. Sigmundsson, hagfræðingur, tilnefndur af Vinnumálastofnun og Þór G. Þórarinsson, skrifstofustjóri, tilnefndur af félagsmálaráðuneytinu. Gert er ráð fyrir þvíað starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir lok þessa árs.