Staða lífeyrissjóðanna er traust.

Raunávöxtun lífeyrissjóðann á undanförnum árum hefur verið vel yfir þeim mörkum sem tryggingafræðingar styðjast við þegar fjárhagsleg staða lífeyrissjóðanna er metin. Hin góða raunávöxtun sem sjóðirnir hafa almennt búið við á síðustu árum hefur jafnframt að fullu skilað sér í auknum lífeyrisréttindum sjóðfélaga.

Að undanförnu hafa í fjölmiðlum verið birtar fréttir og samanburður á raunávöxtun lífeyrissjóðanna . Ljóst er að samanburður á hreinni raunávöxtun milli lífeyrissjóða getur verið mjög villandi, þegar litið er til skamms tíma, m.a. vegna þess að mismunandi samsetning í eignasöfnum sjóðanna gerir samanburðinn yfirleitt ekki marktækan. Raunávöxtun lífeyrissjóðann á undanförnum árum hefur verið vel yfir þeim mörkum sem tryggingafræðingar styðjast við þegar fjárhagsleg staða lífeyrissjóðanna er metin. Hin góða raunávöxtun sem sjóðirnir hafa almennt búið við á síðustu árum hefur jafnframt að fullu skilað sér í auknum lífeyrisréttindum sjóðfélaga. Lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði byggja á fullri sjóðssöfnun og að jafnvægi sé milli eigna ásamt núvirtum framtíðariðgjöldum og heildarlífeyrisskuldbindingum. Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meira en 10% munur er milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga er hlutaðeigandi lífeyrissjóði skylt samkvæmt lögum að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Sama gildir er munurinn hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Þessar aðgerðir geta annahvort þýtt að réttindin eru aukin eða minnkuð. Samkvæmt nýbirtri skýrslu Fjármálaeftirlitsins kemur í ljós að lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði eru allir reknir í jafnvægi með tilliti þeirra skilyrða sem sett eru samkvæmt lögum og tryggingafræðilegum athugunum vegna ársins 2000. Sé tekið mið af heildarskuldbindingum sjóðanna eru sjóðirnir að meðaltali reknir með 1,6% afgangi. Sem dæmi um trausta fjárhagslega og tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóðanna þarf enginn lífeyrissjóður að minnka lífeyrisréttindi sjóðfélaga, þrátt fyrir að ekki náðist nægjanlegan góður fjárfestingarárangur í fyrra. Þvert á móti munu nokkrir lífeyrissjóðir, sem reknir voru með meira en 10% afgangi milli eignaliða og lífeyrisskuldbindinga auka lífeyrisréttindi sjóðfélaganna. Þessi trausta fjárhagsstaða lífeyrissjóðanna vekur ekki síst athygli í ljósi þess að sjóðirnir hafa eins og áður segir almennt verið að auka lífeyrisréttindi sjóðfélaga á undanförnum árum. Lífeyrissjóðir sem eru með bakábyrgð ríkis, sveitarfélaga eða banka á skuldbindingum sínum eru undanskilin ákvæðum laga um fulla sjóðssöfnun. Þessir lífeyrissjóðir taka ekki við nýjum sjóðfélögum utan þriggja sem hafa nýtt sér heimild í lögum til að stofna nýjar deildir sem byggja á fullri sjóðsöfnun. Þannig hefur veruleg breyting orðið á starfsumhverfi þessara sjóða miða við það sem áður var enda munu hinar nýju deildir sjóðanna taka á næstu árum við eldra fyrirkomulagi. Í því sambandi má nefna sem dæmi að meirihluti ríkisstarfsmanna greiðir nú þegar í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en sú deild byggir á fullri sjóðssöfnun og er í tryggingafræðilegu jafnvægi. Þá ber ennfremur að vekja athygli á að auk hefðbundinnar greiðslu ríkisins til sjóðsins þá hefur ríkisvaldið á undanförnum áru greitt til viðbótar verulega fjármuni til þess að efla hina fjarhagslega stöðu sjóðsins. Þannig er ljóst að markvisst er unnið að því að byggja upp lífeyrisskerfi með fullri sjóðssöfnun fyrir opinbera starfsmenn. Þegar mat er lagt á fjárfestingarárangur eða lífeyrisskuldbindingar sjóðanna er ekki litið til nokkurra ára heldur til mjög langs tíma, jafnvel nokkurra áratuga. Okkur Íslendingum hefur lánast að byggja upp lífeyrissjóðakerfi, sem er í senn ódýrt í rekstri, fjárhagslega traust og skilvirkt. Við megum því ekki láta skammtímasjónarmið villa okkur sýn, þó raunávöxtun lífeyrissjóðanna hafi ekki verið eins góð og þegar best lét, því þegar á heildina er litið er fjárhagsstaða sjóðanna mjög traust.


Þessi grein er eftir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóra LL, og birtist í Morgunblaðinu í dag.