Slakt gengi breskra fyrirtækjalífeyrissjóða.

Ráðgjafafyrirtækið Watson Wyatt áætlar að níu af hverjum tíu breskum fyrirtækja- lífeyrissjóðum séu reknir með halla vegna slaks gengis á hlutabréfamörkuðunum. Hallinn er áætlaður um 70 milljarða punda eða 110 milljarða evra. Þetta kemur fram í nýjasta hefti tímaritsins IPE, Investment & Pension Europe.

Í skýrslu Watson Wyatt kemur fram að meðaleign í hlutabréfum í fyrirtækjalífeyris- sjóðunum bresku er um 65% af heildareignum og aðeins einn af hverjum tíu sjóðum er með hlutfall hlutabréfa af eignum undir 50%. Algjörlega andstætt lífeyrissjóðnum hjá Boots sem skipti hlutabréfum og skammtíma skuldabréfum sínum yfir skuldabréf til langs tíma í október í fyrra, þá eru lífeyrissjóðir fyrirtækja eins og Granada og Vodafone með á milli 90% til 100% af eignum sínum í hlutabréfum. Þrátt fyrir slakt gengi á hlutabréfamörkuðunum er skýrsla Watson Wyatt nokkuð bjartsýn. Þannig er áætlað að þrátt fyrir að FTSE vísitalan hafi fallið um 20% frá áramótum megi búast við því að ef litið er til lengri tíma þá muni árleg ávöxtun hlutabréfa vera um 7% miðað við um 5% ávöxtun skuldabréfa. Ef fyrirtækin geta staðið af sér það gjörningarveður sem nú er á hlutabréfamörkuðunum og haldið áfram ótrauð að kaupa hlutabréf er áætlað að umræddur 70 milljarða punda halli muni hverfa á næstu tíu árum. Þannig er varað við skýrslunni að færa nú hlutabréfaeign yfir í skuldabréf.