Alþingi hefur nú samþykkt breytingar á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þar sem m.a. er kveðið á um skyldu stjórnar lífeyrissjóðs að setja verklagsreglur um verðbréfaviðskipti sjóðsins, stjórnar hans og starfsmanna. Skulu slíkar reglur staðfestar af Fjármálaeftirlitinu.
Breytingar þessar eru tilkomnar vegna nýlegra breytinga á lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Megin tilgangur laganna er að herða enn frekar á um skil á ýmsum gögnum til Fjármálaeftirlitsins, þ.á.m. með auknum valdheimildum, svo sem beitingu dagsekta, sem geta numið allt að 1 millj. kr. á dag og með févítum (stjórnvaldssektum) sem geta numið allt að 2 millj. kr. Þá er Fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögunum nú heimilt að gera sérstakar athuganir á starfsstað, þ.á.m. hjá lífeyrissjóðum, og leggja hald á gögn í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála. Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða um frumvarp til laga um breytingar á lagakvæðum um fjármálaeftirlit, lýstu samtökin sig sérstaklega andsnúin ákvæðum þess um dagsektir og stjórnvaldssektir, en frumvarpið gerði ráð fyrir að dagsektir gætu numið allt að 5 millj. kr. á dag og stjórnvaldssektir allt að 10 millj. kr. Í meðförum Alþingis var að nokkru leyti tekið undir þessi sjónarmið Landssamtaka lífeyrissjóða og sektarfjárhæðir lækkaðar nokkuð frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu.