Skattfrjáls lífeyrissparnaður aukinn

Davíð Oddsson, forstætisráðherra, hefur boðað aukinn lífeyrissparnað með auknu skattfrelsi.

Á Viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands sem haldið var í gær kom fram hjá Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, að ríkisstjórnin sé nú að undirbúa að auka enn skattfrelsi lífeyrissparnaðar frá því sem nú er til að ýta undir almennan sparnað í landinu. 4% iðgjald launamanna í lífeyrissjóð en nú frádráttarbært við staðgreiðslu skatta. Auk þess er heimilt að veita til viðbótar frádrátt allt að 2% af launum til aukinnar lífeyrissparnaðar. Atvinnrekandi greiðir á móti allt að 0,2% af launum, sem hann fær síðan að draga frá staðgreiðslu tryggingagjalds einu sinni á ári. Viðbótarsparnaður þessi sem er frjáls og háður ákvörðun launamanns hefur alls ekki orðið almennur, þrátt fyrir skattaívilnanir og framlag atvinnurekenda. Talið er að ekki nema 10% til 15% launamanna notfæri sér þessa sparnaðarleið, sem er langt undir væntingum stjórnvalda og þeirra aðila sem heimild hafa til að taka við þessum sparnaði, þ.á.m. lífeyrissjóða. Á næstunni mun fjármálaráðuneytið birta niðurstöður skoðunarkönnunnar, hversu stór hluti launamanna tekur þátt í viðbótarlífeyrissparnaðinum. Ekki er vitað hvaða leiðir verða farnar til að auka lífeyrissparnaðinn, en til greina gæti komið að heimila enn frekari skattafrádrátt vegna iðgjalda af lífeyrissparnaði, auk þess að hækka framlag avinnurekandans sem hann gæti síðan dregið frá tryggingagjaldinu.