Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að samstarfsverkefni um framþróun verðbréfamarkaðar á Íslandi. Verkefnisstjórn var mynduð í ársbyrjun 2000 og skipuð fulltrúum frá Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Samtökum fjármálafyrirtækja, Landssamtökum lífeyrissjóða, Fjármálaeftirlitinu, Verðbréfaþingi Íslands og Verslunarráði Íslands. Myndaðir voru málefnahópar sérfræðinga frá helstu stofnunum, fyrirtækjum og samtökum sem tengjast verðbréfamarkaðinum, og hafa þeir skilað ýtarlegum skýrslum og tillögum.
Verðbréfamarkaðurinn á Íslandi er í örri þróun og hefur mikil og vaxandi áhrif á hagvöxt í landinu og stöðu atvinnulífs og lífskjara yfirleitt. Verðbréfamarkaðurinn hefur mótast og vaxið á einum áratug, samhliða stóreflingu lífeyrissjóðakerfisins. Á sama tíma hafa einnig skapast algerlega nýjar samkeppnisaðstæður við það að markaðurinn hefur opnast gagnvart útlöndum. Á þessum tíma hafa að vonum verið gerðar margháttaðar breytingar á löggjöf og reglugerðum um verðbréf og verðbréfaviðskipti. Í mörgum atvikum hefur þróunin tekið mið af framvindunni í Evrópu, en einnig hefur verið miðað við íslenska reynslu og aðstæður hér. Mjög mörg atriði koma til álita þegar fjallað er um framþróun verðbréfamarkaðarins um þessar mundir. Meðal annars hafa umræður orðið um svokallaðan "gráan" markað, um öryggi viðskiptanna og mismun á almennum og lokuðum útboðum. Rætt er um upplýsingaskyldu, verkaskiptingu og vernd fjárfesta, um innherjaviðskipti og hættu á misferli, svo og um hlutverk eftirlitsstofnana. Mikil þörf virðist á málefnalegri fræðslu, bæði til markaðsaðila og ekki síður fyrir almenning. Rætt er um stöðu íslensku krónunnar í fjölþjóðlegum viðskiptum, um skattamál og reglur um reikningsskil o.fl. Þessir þættir og margir fleiri hafa verið til umræðu í þeim málefnahópum sem myndaðir voru til að vinna að samstarfsverkefninu. Í hópunum hafa sérfræðingar af ólíkum sérsviðum fengið tækifæri til að bera saman bækur og ráðgast um nauðsynlega áfanga í framtíðarþróun verðbréfamarkaðarins, og leitast hefur verið við að fá fram sem fjölbreyttust sjónarmið og reynsluþekkingu starfsmanna og stjórnenda. Í samstarfsverkefninu hefur athygli einkum verið beint að samkeppnishæfni íslenska verðbréfamarkaðarins, að starfsháttum markaðarins, að skráningarkröfum, upplýsingaskyldu og yfirtökureglum, svo og að markaðssetningu markaðarins til fjárfestanna. Auk þessara þátta hefur fjölmörg önnur atriði borið á góma, og m.a. hefur óháður erlendur sérfræðingur verið með í ráðum. Ljóst er að fjöldamörg þróunarverkefni tengd verðbréfamarkaðinum eru nú þegar í undirbúningi og vinnslu, m.a. á vettvangi Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og þeirra samtaka og stofnana sem áður eru nefndar. Samstarfsverkefnið hefur þegar haft talsverð áhrif á þessa vinnu svo sem eðlilegt og æskilegt má telja. Auk þeirra tillagna og ábendinga sem komið hafa fram í vinnu málefnahópanna og verkefnisstjórnarinnar hefur samstarfsverkefnið einnig verið virkur vettvangur til samráðs og umræðna, og á tímabili örrar þróunar og breytinga gegna slík samskipti miklu máli.