Nú í vikunni var undirrituð í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands og Landssambands eldri borgara um stefnumótun og aðgerðir ríkisvaldsins í málefnum aldraðra sem koma til framkvæmda næstu tvö til þrjú árin.
Yfirlýsingin er undirrituð með hliðsjón af tillögum sérstaks starfshóps sem fjallað hefur um brýn úrlausnarefni í málefnum aldraðra. Starfshópurinn skilaði tillögum um margþættar aðgerðir sem bæði snúa að aðbúnaði og skipulagi öldrunarmála og hækkun á greiðslum almannatrygginga.
Starfshópurinn hefur kannað tekjuþróun aldraðra miðað við aðra þjóðfélagshópa sem og þróun á greiðslum almannatrygginga síðasta áratug. Niðurstaðan gefur tilefni til að hækka tryggðar lágmarkstekjur og draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga. Lagt er til að þessi hækkun komi til framkvæmda í tveim áföngum og fyrri áfangi hennar þegar frá næstu áramótum en sá síðari ári seinna. Í fjárlagafrumvarpi er miðað við að greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins hækki sem svarar almennum umsömdum launahækkunum í upphafi næsta árs skv. almannatryggingalögum.
Ríkisstjórnin hefur þegar fjallað um tillögur starfshópsins að stefnumótun og aðgerðum og samþykkt að beita sér fyrir því að þær nái fram. Samtals er talið að árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna aðgerðanna verði um 5 milljarðar króna þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda árið 2005, þar af er helmingur vegna meiri greiðslna almannatrygginga.