Sameinaði lífeyrissjóðurinn birtir árshlutauppgjör.

Gengið hefur verið frá endurskoðuðu árshlutauppgjöri Sameinaða lífeyrissjóðsins fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins 2001. Öllum sjóðfélögum, lífeyrisþegum og launagreiðendum hefur verið sent fréttabréf þar sem helstu niðurstöður uppgjörsins eru kynntar.

Þegar litið er til síðustu tólf mánuða er raunávöxtun neikvæð vegna lélegrar ávöxtunar á síðustu mánuðum ársins 2000. Sé hins vegar skoðað tímabilið janúar til apríl 2001 var ávöxtun innlendra og erlendra hlutabréfa slök en ávöxtun skuldabréfa góð. Að gefinni þeirri forsendu að ávöxtun sjóðsins og verðbólga ársins 2001 verði sú sama og á tímabilinu janúar til apríl 2001 verður nafnávöxtun sjóðsins 8,1% og raunávöxtun 1,3% á árinu 2001. Ávöxtun erlendra hlutabréfa sjóðsins í maí 2001 var góð og eru vonir bundnar við að frekari hækkun verði á verðmæti þeirra undir lok ársins. Þrátt fyrir slaka ávöxtun sjóðsins á fyrstu mánuðum ársins 2001 í samanburði við fyrri ár er staða sjóðsins sterk í lok apríl 2001. Heildareign stigadeildar sjóðsins umfram skuldbindingu nam 1.620. millj. kr. eða 2,2% af heildarskuldbindingu. Heildareign aldurstengdrar deildar umfram skuldbindingu nam 61 millj. kr. eða 0,7% af heildarskuldbindingu.