Sameinaði lífeyrissjóðurinn hefur birt ársreikning sinn fyrir árið 2000. Þar kemur fram að ávöxtun sjóðsins gekk vel framan af árinu 2000. Síðustu mánuði ársins lækkuðu hins vegar verulega gengi innlendra og erlendra hlutabréfa, sem leiddi til þess að hrein raunávöxtun sjóðsins varð neikvæð um 0,9%. Ef litið er til síðustu 5 ára er hrein raunávöxtun sjóðsins hins vegar vegar jákvæð um 7,9% að meðaltali.
Hrein eign Sameinaði lífeyrissjóðsins var rúmlega 42 milljarðar í lok síðasta árs miðað við 39,5 milljarða í árslok 1999. Hrein eign stigadeildar var tæp 42 milljarðar en eign í aldurstengdri deild um 107 milljónir króna. Raunávöxtun innlendra skuldabréfa nam 6,8% í fyrra, en raunávöxtun innlendra hlutabréfa varð neikvæð um 10,6% og raunávöxtun erlendra verðbréfa var neikvæð um 9,5%. Þetta leiddi til þess að raunávöxtun sjóðsins í heild var neikvæð um 0,9%. Þrátt fyrir slaka afkomu sjóðsins á árinu 2000 samanborið við fyrri ár og sérstaklega aukningu lífeyrisréttinda 1. júlí 2000 um 7%, er staða sjóðsins sterk í árslok 2000. Eignir stigadeildar sjóðsins umfram heildarlífeyrisskuldbindingu voru 1,7 milljarðar króna eða 2,4% af heildarskuldbindingu og eignir aldurstengdrar deildar var 45 millj. kr. eða 1% af heildarskuldbindingu.