Erlend verðbréf i eigu lífeyrissjóðanna námu samtals 120.845 m.kr. í lok júlí s.l., sem er sama hlutfall og í lok júní s.l. eða 21,5% af heildareignum. Aukning sjóðfélagalána er hins vegar mjög mikil.
Tölfræðisvið Seðlabanka Íslands hefur tekið saman efnahagsyfirlit lífeyrissjóða miðað við lok júlí s.l. Heildareignir sjóðanna námu samtals 563.027 m.kr. Þar af námu erlend verðbréf 120.845 m.kr. eða 21,5% af heildareignum. Er það sama hlutfall og í lok júnímánaðar s.l. Aukning erlendra eigna nam 53.504 m.kr. á 12 mánaða tímabili eða frá júlílokum 1999. Heldur hefur dregið úr vexti lífeyrissjóðakerfisins og samkvæmt 12 mánaða hreyfingu nam vöxturinn um 25% nú í lok júlí, en fór hæstur í lok febrúar í 30%, sem rekja má til mikilla hækkana hlutabréfa í eigu sjóðanna. Sú breyting sem nú hefur orðið má með sama hætti rekja til lækkana á markaðsvirði hlutabréfa að undanförnu. Sérstaka athygli vekur umtalsverð aukning sjóðfélagalána í eignasöfnum lífeyrissjóðanna. Þannig námu heildareignir í lánum til sjóðfélaga 51.119 m.kr. í lok júlí s.l. miðað við 44.809 m.kr. í lok síðasta árs. Þessi aukning sést best ef skoðuð er hreyfing síðustu 12 mánaða. Aukningin frá júlí 1999 er 9.308 m.kr., miðað við einungis 1.321 m.kr. aukningu yfir 12 mánaða tímabil frá júlí 1998 til júlí 1999. Þá er aukning sjóðfélagalána rúmur einn miljarður í júlí s.l. miðað við 523 m.kr. í júlí á síðasta ári.