Rúmlega 45 þúsund manns lögðu til hliðar í viðbótarlífeyrissparnað í fyrra.

45.400 manns lögðu til hliðar í viðbótarlífeyrissparnað á síðasta ári. Er það fjölgun um 49% miðað við árið 1999, þegar um 30 þúsund manns tóku þátt í viðbótarlífeyrisparnaðinum. Embætti Ríkisskattstjóra hefur tekið þessar upplýsingar saman úr skattframtölum einstaklinga.

Á síðasta ári tóku um 29% launamanna þátt í viðbótarlífeyrissprnaðinum miðað við um 20% á árinu 1999. Ljóst er að þetta hlutfall er nokkuð lægra en menn bjuggust við, því samkvæmt könnun PriceWaterhouseCoopers í janúar s.l., þá sögðust 37% fólks á aldrinum 18 til 75 ára leggja til hliðar í viðbótarlífeyrissparnað. Alls lögðu launamenn til hliðar á síðasta ári í viðbótarlífeyrissparnað 2.426 m.kr., sem er hvorki meira né minna en um 82% aukning frá árinu 1999. Þessa aukningu má ekki síst rekja til þess að á síðasta ári var ákveðið að létta tekjuskatti af allt að 4% framlagi launþega í viðbótarlífeyrissparnað. Þessu til viðbótar kemur síðan 1% mótframlag frá launagreiðendum og allt að 0,4% framlag frá ríkinu í formi lækkunar á tryggingargjaldi. Þannig getur heildarframlag í viðbótarlífeyrissparnað verið allt að 5,4%. Í byrjun næsta árs mun mótframlag atvinnurekenda aukast úr 1% í 2%. Launamaður mun þá geta greitt 4% af heildarlaunum sínum í viðbótarlífeyrissparnað og lækkað skatta sína sem því nemur og fengið til viðbótar 2% mótframlag frá atvinnurekanda sínum og 0,4% frá ríkinu. Heildarframlagið verður því 6,4% um næstu áramót.