Ríkisskattstjóri: Aðgerðir hafnar vegna vanskila lífeyrisiðgjalda 1999.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, hefur ríkisskattstjóri með höndum eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til. Í 27. gr. reglugerðar nr. 391/1998 kemur fram að ríkisskattstjóri skal senda hverjum og einum lífeyrissjóði yfirlit vegna vangreiddra iðgjalda þess manns sem er aðili að sjóðnum samkvæmt þeim upplýsingum sem embættið hefur fengið. Ríkisskattstjóri hefur nú sent lífeyrissjóðunum yfirlit vegna vangreiddra iðgjalda sjóðfélaga vegna ársins 1999,

Í áðurnefndri 27. gr. kemur fram að framangreindar upplýsingar skuli ríkisskattstjóri láta í té eigi síðar en 20. september ár hvert. Sú dagsetning hefur ekki staðist í ár og eru eðlilegar skýringar á því að mati Ríkisskattstjóra. Í fyrsta lagi þá var færslulýsingu breytt frá fyrra ári, sem átti eflaust einhvern þátt í því að gögn bárust seint frá nokkrum lífeyrissjóðum og í einhverjum tilfellum voru gögn ekki í samræmi við færslulýsinguna. Í öðru lagi þá var ákveðið á síðari stigum að veita lífeyrissjóðum nánari upplýsingar en upphaflega var fyrirhugað, m.a. um launagreiðendur þeirra launamanna sem eru í vanskilum, í þeim tilfellum sem það var mögulegt. Í þriðja lagi þá þurfti að gera ýmsar breytingar vegna samkeyrslu gagna og taka út ákveðna þætti s.s bifreiðahlunnindi. Varðandi fyrirhugaða innheimtu vangoldinna lífeyrisiðgjalda vegna ársins 1999, þá telur Ríkisskattstjóri mikilvægt að hún samanstandi af festu og samræmi. Því eru lífeyrissjóðir hvattir til þess að hefja innheimtu vangoldinna iðgjalda sem fyrst. Fljótlega á næsta ári mun svo verða gerð úttekt á því hvernig til hefur tekist. Jafnframt er athygli vakin á því að lífeyrissjóðum ber að innheimta vangoldin iðgjöld sem launagreiðendur hafa sannanlega innheimt og sjóðirnir hafa upplýsingar um, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 129/1997, með síðari breytingum.