Vaxtalækkanir eru nú á margra vörum, ekki hvað síst spámanna á því sviði og þykir enginn gáfulegur nema hann tali um vaxtabreytingar uppá svo og svo marga "punkta". Þetta er óþörf amerísk sletta.
Í ágætu greinarkorni í Morgunblaðinu fyrir helgi skrifar Þorkell Helgason um svokallaða "vaxtapunkta." Með góðfúslegu leyfi Þorkels er vitnað hér í greinina. "Punktarnir" vísa til þess, hvernig stigabrot eru skráð í hinum enskumælandi heimi. Þar eru skilin milli heiltölu og tugabrots auðkennd með punkti en við og margir aðrir notum kommu í sama skyni. Punktatalið þeirra amerísku tekur mið af tugabrotsskráningu á vöxum með tveimur aukastöfum; tveimur vegna þess að þannig eru flestir viðskiptalegar reiknivélar og reikniforrit stillt enda svarar það til senta sem hundraðshluta úr dali. Þeir sem vilja apa allt eftir Ameríkönum ættu þannig að minnsta kosti að tala um "vaxtakommur" fremur en "vaxtapunkta" allt eins og foreldrar hér á landi segja börn sín vera með svo og svo margra "kommu"hita og er þá átt við tíund úr celcíusstigi umfram 37°C. En skýrast og best er að tala hvori um "vaxtakommur" og enn síður um "vaxtapunkta" heldur segja skýrt það sem um er að ræða. Þegar fjármálavitringarnir segja að vextir eigi að lækka um 100 punkta þá meina þeir ekkert annað en að vextirnir eigi að lækka um 1 prósent, t.d. úr 10% í 9%. Sumum þykir skýrara að tala um vexti í "prósentustigum" og tala þá um lækku um 1 prósentustig. Hvort tveggja þykir mér skýrt og skiljanlegt."