Ósmekklegum ummælum vísað á bug

Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ og fyrrverandi alþingismaður og ritstjóri, sendir starfsfólki lífeyrissjóðanna í landinu frekar ógeðfelldar kveðjur í Morgunblaðinu fyrir nokkru. Í greininni segir Ellert að sjálfsagt séu teknar upp kampavínsflöskur hjá hverjum lífeyrissjóði í hvert skipti sem eitthvert gamalmenni fellur frá. Landssamtök lífeyrissjóða hafa í svargrein til Morgunblaðsins vísað þessum ummælum á bug.

Í greininni fjallar Ellert um kjör eldri borgara sem hann telur oft slæm. Í lok greinar sinnar segir Ellert að sjálfsagt séu teknar upp kampavínsflöskur hjá hverjum lífeyrissjóði í hvert skipti sem eitthvert gamalmenni fellur frá. Einnig telur Ellert að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna séu uppteknari við að leggja fjármagn sitt í "spilavíti fjármálamarkaðarins” en að sinna því fólki sem hefur lagt sinn skerf til þessara sjóða. Í grein Ellerts gætir verulegrar vankunnáttu og fordóma í garð lífeyrissjóðanna og starfsfólks þess. Eins og öllum ætti að vera kunnugt er eina hlutverk lífeyrissjóðanna að greiða sjóðfélögum lífeyri. Lífeyrissjóðir eiga ekki að hafa neina aðra starfsemi með höndum en sem lýtur að því að taka við iðgjöldum og ávaxta þau með þeim hætti að tryggt sé að hægt sé að greiða sem bestan lífeyri við starfslok, örorku eða fráfall sjóðfélaga. Ekki skal því mótmælt að eldra fólk í dag er ekki ofsælt af þeim lífeyri sem það fær. Þar er hins vegar ekki við lífeyrissjóðina að sakast. Lífeyrissjóðirnir á Íslandi eru almennt ungir og því hefur það fólk sem nú er orðið fullorðið og komið á ellilífeyri annað hvort ekkert greitt í lífeyrissjóð eða aðeins greitt lítinn hluta af starfsæfi sinni til lífeyrissjóðs og þá sennilega ekki af nema hluta launa sinna. Þar af leiðir fær þetta fólk ekki mikið greitt úr lífeyrissjóðunum. Þeir 500 milljarðar króna sem ,,safnast hafa á hendur sjóðanna” eins og segir í greininni eru eign þeirra sjóðfélaga sem í þá hafa greitt og þeir fjármunir verða aldrei greiddir neinum öðrum en þeim sem þá eiga, þ.e. sjóðfélögunum, mökum þeirra og börnum. Þess vegna er það skylda starfsfólks og stjórna lífeyrissjóðanna í landinu að varðveita þessa fjármuni og ávaxta þá með sem bestum hætti, þannig að hægt sé að standa við gefin lífeyrisloforð. Þetta á að vera Ellert B. Schram ljóst þó hann kjósi að þessu sinni að hafa uppi ósmekkleg ummæli í garð lífeyrissjóðanna og starfsfólks þeirra.