Þann 1. október á síðasta ári tók gildi nýtt samkomulag um samskipti lífeyrissjóða. 40 lífeyrissjóðir eru þegar orðnir aðilar að samkomulaginu.
Þó um sé að ræða nýtt samkomulag um samskipti sjóðanna, má rekja meginþætti samkomulagsins allt til ársins 1983 þegar þáverandi lífeyrissjóðasamtök, Samband almennra lífeyrissjóða og Landssamband lífeyrissjóða, beittu sér fyrir gerð samkomulags um samskipti lífeyrissjóðanna. Það samkomulag hélst óbreytt í nær hálfan annan áratug. Árið 1997 ákváðu lífeyrissjóðasamböndin að taka samkomulagið til endurskoðunar og lauk þeirri vinnu með nýju samkomulagi sem tók gildi 1. júní 1998. Með tilkomu laga um starfsemi lífeyrissjóða og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 129/1997, sem öðluðust gildi 1. júlí 1998, þótti hins vegar eðlilegt að endurskoðun færi fram á samkomulaginu með tilliti til ýmissa ákvæða laganna. Þeirri vinnu lauk svo sumarið 1999 með nýju samskiptasamkomulagi, sem tók gildi 1. október s.l., eins og áður segir. Megin tilgangur samkomulagsins er að koma í veg fyrir réttindamissi sjóðfélaga við úrskurð bóta, sérstaklega þó við úrskurð framreiknings lífeyrisréttar í örorku- og makalífeyrismálum. Við úrskurð um lífeyrisréttindi sjóðfélaga skal samkvæmt samkomulaginu taka tillit til iðgjaldagreiðslna til annarra lífeyrissjóða, þar sem lífeyrisréttur hefur skapast eða hefði skapast, ef fullnægt hefði verið skilyrðum sjóðanna um lágmark áunnins réttindatíma o.fl. Samkomulagið er því mjög mikilvægt fyrir alla lífeyrissjóði sem fengið hafa starfsleyfi fjármálaráðuneytisins og þurfa því að framreikna réttindi í bótamálum. 40 lífeyrissjóðir eru nú þegar orðnir aðilar að samkomulaginu og þar af allir stærstu lífeyrissjóðir landsins. Rétt er að fram komi að samkomulag íslenskra lífeyrissjóða um samskiptamál á sér ekki hliðstæðu erlendis og er að því leyti einstakt. Er því umrætt samskiptasamkomulag enn ein sönnun þess að við Íslendingar búum við eitt fullkomnasta lífeyrissjóðakerfi í heimi.