Nýtt lífeyriskerfi í Svíþjóð: Hægt að velja á milli 450 sjóða!

Fyrir nokkru var sagt hér í LL-FRÉTTUM frá nýju lífeyriskerfi í Svíþjóð og minnst á sérstaka stofnun PPM, Premiepensionsmyndigheten, sem verður tengiliður milli launamannsins og hinna fjölmörgu sjóða, sem bjóðast til þess að annast varðveislu og ávöxtun á sænska lífeyrissparnaðinum. Verður nú vikið nánar að PPM.

Heildariðgjald er hinu nýja sænska lífeyriskerfi verður 18,5%. Það skiptist þannig að 16% iðgjald fer í samtímalífeyrisgreiðslur en 2,5% iðgjald er hins vegar fjárfest í sjóðum, sem launþegar geta valið, þ.e. sá hluti heildariðgjaldsins byggist því á sjóðsmyndandi lífeyrissparnaði. Í boði verða fjölmargir fjárfestingasjóðir, sem sjóðfélagar geta valið um, hvað varðar 2,5% iðgjaldið, og þeir geta hvenær sem er skipt um sjóði. Á sama tíma geta sjóðfélagar valið allt að fimm mismunandi sjóði. Aðeins PPM veit hvaða sjóð viðkomandi einstaklingur hefur valið. Það merkir að hinir ýmsu sjóðstjórar eða fjárvörsluaðilar geta ekki fengið upplýsingar hverjir hafa valið þeirra sjóði. Þær upplýsingar liggja aðeins hjá PPM, sem sendir sjóðfélögum árlega upplýsingar um stöðu inneignar og um ávöxtun. Sjóðfélagar bera sjálfir fjárhagslega áhættu á fjárfestingunum. Gagnvart sjóðfélaganum er það hins vegar PPM sem kemur fram fyrir hönd þeirra. Sérhver sjóður byggir á fjárfestingareglum, sem hann verður að fara eftir. Þannig er hægt að flokka sjóðina niður eftir eðli fjárfestinganna, t.d. hlutabréfasjóði, skuldabréfasjóði eða blandaða sjóði. Sjóðirnir þurfa að famfylgja tveimur megin skilyrðum. Í fyrsta lagi að undirgangast reglur Evrópumsambandsins, svokallaðar UCITS-reglur, og í öðru lagi að samþykkja þær umsýsluþóknanir sem PPM hefur lagt til. PPM sendir síðan upplýsingar um sjóðina til sjóðfélagana, til þess að auðvelda þeim valið, sem fer fram í fyrsta skipti nú í haust. Um það bil 450 sjóðir hjá um 70 fjárvörsluaðilum eru nú komnir á skrá hjá PPM. Boðið er upp á um 300 hlutabréfasjóði. Þar af eru um 10% sem eru bundnir vísitölu. Um 70 sjóðir eru skuldabréfasjóðir og u.þ.b. 80 eru blandaðir sjóðir. Um fjórðungar sjóðanna fjárfesta aðallega í Svíþjóð. Þó hafa bæst við sjóðir frá um tíu erlendum fjárvörsluaðilum, sem ekki buðu áður fjármálaþjónustu sína í Svíþjóð. Óneitanlega er fyrirkomulag á þessum viðbótarlífeyrissparnaði það sem er mest spennandi við hið nýja endurbætta sænska lífeyriskerfi. Lífeyriskerfið bíður upp á mikið val fyrir sjóðfélagana á fjárvörsluaðilum, en samhliða þessu vali er kerfið að nokkru leyti miðstýrt með tilkomu PPM, sem semur við alla sjóðina eða fjárvörsluaðilana um umsýsluþóknanir og gerir við sjóðina sérstakan samskiptasamning og fylgist að öðru leyti með því að allt fari fram eftir settum reglum.