Þann 7. desember s.l. var undirritað samkomulag milli Tryggingastofnunar ríkisins og Landssamtaka lífeyrissjóða um framkvæmd mats á orkutapi. Samkomulagið kemur í stað hliðstæðs samnings milli Tryggingastofnunar ríkisins annars vegar og Landssambands lífeyrissjóða og Sambands almennra lífeyrissjóða hins vegar, sem gert var 7. febrúar 1996. Um er að ræða svokallan rammasamning á milli aðila, en einstakir lífeyrissjóðir geta gerst aðilar að samkomulaginu með sérstakri yfirlýsingu.
Helstu breytingar frá eldra samkomulagi felast í ákvæðum 4. gr. samkomulagins, þar sem áréttuð er nauðsyn þess að nákvæmar upplýsingar komi fram um heilsufarssögu sjóðfélagans við mat á orkutapi. Í 4. grein samkomulagsins um efnisatriði mats, segir svo: "Mat tryggingayfirlæknis eða staðgengils hans skal vera rökstutt, hnitmiðað og skipulega upp sett. Í því skulu eftirfarandi atriði koma fram: 1. Heilsufarssaga sjóðfélaga, þar sem fram komi, hve langt aftur í tímann megi rekja sjúkdóma þá, sem orkutapi valda, svo og hvort og þá hve lengi sjúkdómar eða kvillar af líkamlegum eða geðrænum toga geta talist hafa haft áhrif á starfsorku sjóðfélaga. 2. Orkutap (%) matsþola, ýmist með tilliti til þeirra starfa, sem tengjast aðild hans að lífeyrissjóðnum eða með tilliti til almennra starfa, skv. beiðni lífeyrissjóðs hverju sinni. 3.Tímabil orkutaps sjóðfélaga, þ.e. upphaf, mögulegar breytingar og lok/endurmat. 4.Númer sjúkdómsgreiningar." Samningurinn tekur gildi frá og með 1. janúar 2001. Hann er gerður til ótiltekins tíma, en er uppsegjanlegur af hálfu samningsaðila með þriggja mánaða fyrirvara. Einstakir lífeyrissjóðir geta með þriggja mánaða fyrirvara afturkallað aðild sína að samkomulaginu.