Nýr og endurbættur vefur fyrir Lífeyrissjóð lækna.

Nú nýlega var opnaður nýr og endurbættur vefur fyrir Lífeyrissjóð lækna með slóðinni www.llaekna.is. Þar er hægt að finna allar helstu upplýsingar um sjóðinn, auk þess sem sjóðfélagar geta fylgst með innborgunum og lífeyrisréttindum.

Meðal þess kemur fram á vefnum er átta mánaða uppgjör sjóðsins. Raunávöxtun Lífeyrissjóðs lækna fyrstu átta mánuði ársins 2000 var 1,5% á ársgrundvelli og raunávöxtun s.l. eitt ár var 8,2%. Skýringin á lágri ávöxtun á árinu 2000 er óhagstæð þróun á verðbréfamörkuðum. Lífeyrissjóður lækna metur húsbréfin sín á markaðsverði en þau vega um 15% af eignum sjóðsins. Vextir hafa farið hækkandi frá því í febrúar 1999 og markaðsverð húsbréfa hefur lækkað. Flestir lífeyrissjóðir meta húsbréfin hins vegar miðað við vaxtakjör á kaupdegi sem þýðir að breytingar á vöxtum hafa engin áhrif á verðmat húsbréfanna. Ef húsbréf Lífeyrissjóðs lækna væru metin eins og hjá öðrum lífeyrissjóðum hefði raunávöxtun sjóðsins fyrstu átta mánuði ársins verið 3,0% en síðastliðið ár 9,1%. Hrein raunávöxtun sjóðsins áranna 1995 til 1999 nam að meðaltali 10,4% á ári. Rekstrarkostnaður sjóðsins hefur farið lækkandi á milli ára, hvort sem hann er borinn saman sem hlutfall af eignum eða iðgjöldum.