Á þessu ári hafa verið óvenju tíðar mannabreytingar í æðstu stöðum hjá lífeyrissjóðunum.
Áður hefur verið sagt frá því að Bjarni Brynjólfsson hefur tekið við framkvæmdastjórastöðu hjá Lífeyrissjóðnum Framsýn í stað Karls Benediktssonar. Gísli Marteinsson hefur hætt sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Austurlands og hefur Hafliði Kristjánsson hjá Kaupþingi tekið við hans starfi með aðsetur í Reykjavík. Skrifstofa sjóðins verður eftir sem áður á Neskaupstað og veitir Jóhanna Ásmundsdóttir henni forstöðu. Í kjölfar þessara mannabreytinga hefur Hafliði hætt sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Einingar og við hefur tekið Guðrún Inga Ingólfsdóttir, sjóðstjóri hjá Kaupþingi. Gylfi Jónasson, sem gegnir stöðu deildarstjóra hjá Lífeyrissjóði starfsmanna Sameinuðu þjóðanna í New York, mun væntanlega nú um mánaðarmótin taka við sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vesturlands í stað Jónasar Dalbergs sem mun frá sama tíma taka við stöðu framkvæmdastjóra Verðbréfamiðlunar Framsýnar ehf. Sólberg Jónsson, sparisjóðsstjóri, sem um langt árabil hefur samhliða gegnt stöðu framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Bolungarvíkur, hefur látið af þeim störfum fyrir sjóðinn og við hefur tekið Steinunn Annasdóttir. Þá hefur, eins og áður hefur verið greint frá, Stefán Halldórsson, sem áður gegndi starfi framkvæmdastjóra Verðbréfaþings Íslands h.f., tekið við starfi frankvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga í stað Jóns Hallssonar. Birna Jóhannesdóttir hefur látið af starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar og hefur Lífeyrissjóður Norðurlands tekið við rekstri og umsjá sjóðsins. Af því leiðir að Kári Arnór Kárason hefur tekið að sér framkvæmdastjórn sjóðsins. Þá má loks geta þess að Þorkell Logi Steinsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Akraneskaupstaðar í stað Snorra Páls Einarssonar.