Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld hafa síðustu vikurnar búið svo vel um hnútana að það er beinlínis glapræði fyrir launamenn að leggja ekki til hliðar í viðbótarlífeyrissparnað.
Fyrir fáeinum dögum samþykkti Alþingi breytingar á lögum um tekjuskatt og eignaskatt. Nú getur launamaður lagt til hliðar í viðbótarlífeyrissparnað 4% af launum í stað 2% áður og frestað skattgreiðslu af þeim iðgjöldum þar til kemur að útborgun. Á móti kemur 10% framlag úr ríkissjóði eða sem samsvarar 0,4% af launum (var áður að 0,2% af launum), ákveði launamaður að leggja til hliðar í viðbótarlífeyrissparnað 4% af launum. Sá sem sparar t.d. 70.000 kr. á ári fær því samkvæmt þessu 7.000 kr. til viðbótar í framlag sem kemur til lækkunar á tryggingagjaldi launagreiðenda. Í flestum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði hefur auk þess verið samið um viðbótarframlag launagreiðenda í séreignarsjóð frá og með 1. maí s.l. sem skal vera 1% gegn 2% framlagi starfsmanns. Frá 1. janúar 2002 skal mótframlag vinnuveitenda nema 2% gegn 2% framlagi starfsmanns. Ef við tökum dæmi hér að ofan þá leggur launamaður til hliðar 70.000 kr. á ári. 7.000 kr. mótframlag kemur frá ríkinu og frá atvinnurekandanum koma 17.500 kr. Alls er því lagt inn á reikning launamannsins 94.500 kr. Vegna frestunar á skattgreiðslu greiðir launamaðurinn hins vegar ekki nema 43.141 kr.! Ekki þarf að greiða fjármagnstekjuskatt vegna þeirra vaxta og verðbóta sem menn ávinna sér á sparnaðartímanum og eignin sem myndast er eignaskattsfrjáls. Sparnaðurinn er þannig ekki skattlagður fyrr en við útborgun og þá eins og tekjur almennt. Það er sama hvert litið er, þessi viðbótarsparnaður er sjálfsagður öllu launafólki. Gagnvart þeim aðilum sem eru sérstaklega að hugsa um sveigjanleg starfslok og aukið ráðstöfunarfé í framtíðinni þá er þessi viðbótarsparnaður engin spurning! Sá sem tekur þátt í frjálsum viðbótarlífeyrissparnaði velur sér sjálfur þann aðila sem hann vill að varðveiti og ávaxti sparnaðinn. Viðurkenndir vörsluaðilar geta verið lífeyrissjóðir, líftryggingafélög, sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki og viðskiptabankar. Landssamtök lífeyrissjóða benda á lífeyrissjóðina sem fyrsta valkost launamanna þegar kemur að því að velja fjárvörsluaðila.